Skjár 1 býður landsmönnum frítt í bíó

Skjár 1 streymir nú til landsmanna í línulegri dagskrá kvikmyndum sem sýndar eru alla daga klukkan 17, 19, 21 og 23 með íslenskum texta.

Streymið má nálgast hér að því er segir í fréttatilkynningu.

„Þótt fjölbreyttir afþreyingarmöguleikar séu nú í boði virðast margir kjósa að geta gengið að fyrirfram ákveðinni dagskrá á tilsettum sýningartímum og hafa um 7.000 manns nýtt sér opið og ókeypis streymi stöðvarinnar, en kvikmyndasýningar Skjás 1 eru eingöngu í boði sem línulegur straumur og hafa fyrrverandi sýningartímar kvikmyndahúsanna 5, 7, 9 og 11 orðið fyrir valinu. Hliðrænt áhorf er ekki í boði.

Til stendur á næstunni að auka við áhorfsmöguleika stöðvarinnar með IOS- og Android-öppum, en gera má ráð fyrir að lágmarksgjald verði innheimt hjá þeim sem kjósa að nýta sér þessa möguleika til áhorfs vegna kostnaðar við dreifingu. Enda þótt öpp séu þægilegur kostur er einfalt að stækka myndina á símum og spjaldtölvum og nýta sér Google Chrome eða Airplay til að „endurkasta“ í stærri tæki, eða nota vafra í nýjum sjónvarpstækjum og stilla inn stöðina,“ segir í tilkynningu.

Skjár 1 fór fyrst í loftið árið 1998.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert