Ætla að segja sig úr kirkjunni vegna auglýsingar

Auglýsingin sýnir Jesú með skegg, brjóst og andlitsfarða.
Auglýsingin sýnir Jesú með skegg, brjóst og andlitsfarða. Ljósmynd/Þjóðkirkjan

Skiptar skoðanir hafa verið á auglýsingu þjóðkirkjunnar á sunnudagaskólanum. Auglýsingin sýnir Jesú með brjóst og andlitsfarða, en Pétur G. Markan, samskiptastjóri þjóðkirkjunnar, segir mikilvægt að kirkjan sýni það í verki að hún fagni fjölbreytileikanum.

Þótt margir hafi fagnað auglýsingunni á facebooksíðu kirkjunnar, þar sem auglýsingin var birt, hafa aðrir gagnrýnt hana og sumir jafnvel sagst ætla að segja sig úr kirkjunni. 

„Jesú Kristur dubbaður upp sem transkona og viðrini. Góður business?“ skrifar einn sem deilir auglýsingunni á Facebook. „Þetta er sorglegt. Þjóðkirkjan er á furðulegri vegferð sem kristin kirkja,“ skrifar annar. 

Pétur segir í samtali við mbl.is að viðbrögðin við auglýsingunni hafi verið eftir væntingum. 

„Viðbrögðin hafa verið mjög góð. Við vissum alveg að við fengjum líka viðbrögð frá fólki sem er að lýsa sinni upplifun af Jesú sem er orðinn mjög kvenlegur og kannski ekki eins augljós karlmennskuímynd og hann hefur alltaf verið. En ég myndi segja að við værum almennt ánægð með viðbrögðin sem eru eftir væntingum,“ segir Pétur. 

Pétur G. Markan, samskiptastjóri þjóðkirkjunnar.
Pétur G. Markan, samskiptastjóri þjóðkirkjunnar. mbl.is

Pétur segir fallegustu viðbrögðin koma frá einstaklingum sem eru ef til vill í fyrsta sinn að sjá sig sjálfa í Jesú. 

„Það eru sennilega fallegustu viðbrögðin sem við fáum. Frá fólki sem upplifir sig í Jesú og birtingarmyndin af Jesú eru þau. Þetta er það sem við erum að leggja upp með. Það er mikilvægt að Jesús sé birtingarmynd samfélagins eins og það er. Við erum að reyna að fanga samfélagið, fanga fjölbreytileikann og þar er Jesús ekki undanskilinn,“ segir Pétur. 

Kirkjan birtist fólki með öðrum hætti

„Ef fólk upplifir það að kirkjan sé að birtast því með öðrum hætti þá er það líka rétt,“ segir Pétur. „Það sem fólk kannski upplifir er að kirkjan er að framkvæma það sem við höfum talað um. Það er ekki nóg að tala um mikilvægi þess að ræða fjölbreytileikann og endurspegla samfélagið. Við þurfum líka að sýna það í verki. Það kostar stundum vinnu og kannski örlítil áföll en það er allt í lagi því kærleikurinn sigrar það á endanum,“ segir Pétur. 

Auglýsingin er hluti af myndefni sem unnið var af Láru Garðarsdóttur og kirkjan mun birta á næstu misserum. Pétur segir mikilvægt að hafa í huga að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Jesú er umbreytt í takt við tímann. 

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jesú er umbreytt í konu eða transeinstakling eða hvað sem hver og einn les úr þessari mynd. Það er alþekkt í hinum kristna heimi að fólk umbreyti Jesú í aðstæðurnar sínar. Það er algengt og eðlilegt að guðfræðin sé að móta sig í samfélagið með þessum hætti,“ segir Pétur.

mbl.is

Bloggað um fréttina