Óvissunni eytt

Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins.
Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands sagðist ekki hafa séð nein gögn sem staðið gætu undir fullyrðingu Tryggva Björns Stefánssonar, fulltrúa Sjúkratrygginga Íslands, um að gæðaeftirliti og gæðaskráningu í leitarstarfi félagsins hefði verið verulega ábótavant.

Krabbameinsfélagið segir að þar með hafi óvissunni um hæfi leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins, sem skapast hafði í kjölfar ummæla Tryggva, verið eytt. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Krabbameinsfélagsins.

Starfsemi haldi áfram

„Stjórn félagsins fagnar því að ummæli Tryggva Björns Stefánssonar valdi ekki lengur efa um hæfi félagsins til að framkvæma skimanir og í því ljósi heldur starfsemi Leitarstöðvarinnar áfram með óbreyttu sniði.“

Þetta segir í tilkynningu Krabbameinsfélagsins eftir að María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, fullyrti í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hún kannaðist ekki við að hafa séð gögn sem stutt gætu fullyrðingu Tryggva.

Fundu skjal í dag

María sagði svo við fréttastofu RÚV að „stofnunin hafi ekki haft neina vitneskju um ummæli Tryggva fyrir viðtalið í síðustu viku“, líkt og segir í frétt RÚV um málið.

RÚV hefur svo eftir Maríu að fram hafi komið skjal í dag sem afhent hafi verið Krabbameinsfélaginu og fjalli „að nokkru leyti um þann árangur af þjónustusamningi Sjúkratrygginga við Krabbameinsfélagið“.

María segir að SÍ hyggist ræða við Tryggva um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert