Greina sýni vegna leghálskrabbameins á Landspítala

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Unnur Karen

Greining á sýnum vegna leghálskrabbameins hófst formlega í gær á Landspítalanum eftir nokkurn undirbúning. Þetta kom fram á fundi velferðarnarnefndar Alþingis í morgun.

Ágúst Ingi Ágústsson, yfirmaður á samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, kom fyrir nefndina og gerði grein fyrir gangi mála.

Fundurinn var framhald af frumkvæðisathugun frá því á síðasta þingi, þegar velferðarnefnd Alþingis kannaði flutning greininga á leghálssýnum frá Krabbameinsfélagi Íslands.

Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður velferðarnefndar, segir í samtali við mbl.is að ljóst sé áfram verði send sýni út til Danmerkur, út þetta ár og greining aukin smám saman á Landspítalanum.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og formaður velferðarnefndar Alþingis.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og formaður velferðarnefndar Alþingis. mbl.is/Arnþór

Biðtími verði fjórar til sex vikur

Líneik Anna segir að fram hafi komið á fundinum að gera megi ráð fyrir að biðtími eftir greiningu sýna verði fjórar til sex vikur, þó að möguleiki sé á styttri biðtíma. 

„Þegar sýni eru tekin vegna einkenna eiga þau alltaf að geta fengið flýtimeðferð. Þau koma oft í gegnum heimsókn hjá kvensjúkdómalækni,“ segir Líneik Anna.

Á fundinum kom einnig fram að samskiptavandi á milli tölvukerfa, sem uppi var og olli töfum á niðurstöður áður, hafi verið leystur en enn sé unnið að endurbótum á gagnagrunni vegna skimananna.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is