Funda með forstöðumanni framleiðslueldhúss

Á fundi öldungaráðs verða til umræðu máltíðir aldraðra, sem framleiddar …
Á fundi öldungaráðs verða til umræðu máltíðir aldraðra, sem framleiddar eru í framleiðslueldhúsi borgarinnar við Vitatorg. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

Máltíðir eldri borgara á vegum Reykjavíkurborgar verða teknar til umræðu á fundi öldungaráðs Reykjavíkurborgar 5. október, að forstöðumanni framleiðslueldhúss Reykjavíkurborgar á Vitatorgi viðstöddum, að sögn Ingibjargar Sverrisdóttur, formanns Félags eldri borgara í Reykjavík.

Ráðið fundar mánaðarlega og var seinasti fundur þess í gærmorgun, áður en fréttir bárust af ólystugum plokkfiski og brauði frá framleiðslueldhúsi borgarinnar til íbúa Norðurbrúnar, íbúðakjarna fyrir eldri borgara. 

Næringargildi matarins mikilvægt

„Á næsta fundi ætlum við að fá hann á fund til okkar í öldungaráði til þess að ræða matarmál eldri borgara og næringargildið í því sem fólkið fær,“ segir Ingibjörg. Lögð verði áhersla á að líta á matarstefnu Reykjavíkurborgar.

Hún telur mikilvægt að maturinn sem borgin býður upp á sé nógu lystugur svo að fólk hafi áhuga á að leggja sér hann til munns.

„Síðan er meginmálið að til staðar séu þau næringarefni sem eldri borgarar þurfa á að halda. Umræðan hjá okkur snýst um að þetta sé mælt í hvert skipti sem verið er að matreiða, því eldri borgarar þurfa oft sérstaka næringu til að halda jafnvægi í skrokknum og góðri heilsu,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert