Alvarlega slasaður eftir bifhjólaslys

Slysið varð við Saxhóla á Snæfellsnesi um þrjúleytið í gær.
Slysið varð við Saxhóla á Snæfellsnesi um þrjúleytið í gær. mbl.is/Alfons

Maður á þrítugsaldri liggur alvarlega slasaður á spítala eftir að hafa misst stjórn á bifhjóli sínu með þeim afleiðingum að hann lenti utan vegar, á Útnesvegi á vestanverðu Snæfellsnesi við Saxhóla, síðdegis í gær.

Er talið að hjólið hafi skrikað til í möl við veginn með þeim afleiðingum að maðurinn féll af hjólinu, að sögn Helga Péturs Ottesen, rannsóknarlögreglumanns hjá lögreglunni á Vesturlandi. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti manninn á slysstað og flutti hann á Landspítalann í Fossvogi þar sem hann liggur nú en ekki fást frekari upplýsingar um líðan mannsins að svo stöddu.

Maðurinn var með fulla meðvitund eftir slysið og þegar hann fékk aðhlynningu en málið er nú í rannsókn lögreglunnar á Vesturlandi, að sögn Helga. Útnesvegi við Saxhóla var lokað í kjölfar slyssins.

mbl.is