Hélt í hurðina á kælinum þegar skjálftinn reið yfir

Kristján Þór Magnússon, sveitastjóri Norðurþings.
Kristján Þór Magnússon, sveitastjóri Norðurþings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, var staddur í kjörbúð á Húsavík þegar jarðskjálfti, sem mældist 4,6 að stærð, varð kl. 14:52 í dag.

„Ég var að sækja mér nesti fyrir fund sem stendur núna yfir og hélt bara í hurðina á kælinum þegar þetta reið yfir,“ sagði Kristján í samtali við K100.

„Ég verð að viðurkenna að mér var mjög brugðið og vissi hreinlega ekki hvort ég væri að fá hurðina í andlitið. Þetta gerðist mjög skyndilega og mér fannst þetta ekki langur tími. Þetta var klárlega mjög óþægileg lífsreynsla. Fólk er kannski ekki skelkað en allir upplifðu mjög mikla ónotatilfinningu.“

Kristján á ekki von á að miklar skemmdir hafi orðið í bænum en það eigi þó eftir að fara yfir það.

„Við höfum fundið annað slagið fyrir þessari hrinu sem hefur verið í gangi úti fyrir Norðurlandi en hún hefur verið á meira dýpi en skjálftinn sem fannst núna. Þessi var óþægilega nærri og maður vonar að það sé ekki stærri atburður á leiðinni.“

mbl.is