Allt að 40 metrar á sekúndu

Skynsamlegt er að sleppa ferðum upp á hálendið í dag …
Skynsamlegt er að sleppa ferðum upp á hálendið í dag og á morgun. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Skil nálgast landið úr vestri og verða yfir landinu síðdegis með sunnanhvassviðri og rigningu. Hvassast um landið vestanvert, einkum á norðanverðu Snæfellsnesi og á miðhálendinu með hvössum vindstrengjum við fjöll. Varhugavert fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og útivistafólk að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Gul viðvörun tekur gildi á fjórum spásvæðum síðar í dag.

„Skil eru byrjuð að ganga yfir landið og nú i morgunsárið er farið að hvessa af suðri vestast á landinu. Áfram verður vaxandi sunnanátt á landinu og mun vindur ná stormstyrk á nokkrum stöðum vestanlands og á miðhálendinu, einkum á norðanverðu Snæfellsnesi og norðan jökla. Skilunum fylgir einnig rigning, einkum sunnan og vestan til, en þó mun einhver dálítil væta ná inn á Norðausturland. Í kvöld snýst síðan í hægari suðvestanátt með skúrum, en léttir til austan til í nótt og fyrramálið.

Fram að helgi er útlit fyrir suðvestanstrekkingsvind og áframhaldandi skúrir um landið vestanvert en bjartviðri austanlands. Síðdegis á sunnudag er síðan von á myndarlegri lægð að landinu og með henni allhvassri sunnanátt og rigningi en er lægðin fikrar sig norðaustur yfir landið þá snýst í norðanátt og slyddu eða snjókomu norðanlands,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Vaxandi sunnanátt, 13-20 m/s vestan til síðdegis, annars 8-15. Rigning sunnan- og vestanlands en þykknar upp með dálítilli vætu norðaustan til síðdegis. Snýst í hægari suðvestanátt seint í kvöld og í nótt, fyrst vestast.

Suðvestan 5-13 á morgun en hvassara um tíma suðaustanlands. Skúrir á vesturhelmingi landsins, en að mestu léttskýjað austan til. Hiti 6 til 12 stig að deginum. 

Á föstudag:

Suðvestan 8-15 m/s og smáskúrir, en víða léttskýjað um landið A-vert. Bætir í vind og fer að rigna V-til um kvöldið. Hiti 6 til 11 stig.

Á laugardag: Suðvestan 13-18 og skúrir, en bjart með köflum NA- og A-lands. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag: Gengur í hvassa suðlæga átt með rigningu. Hiti 4 til 10 stig.

Á mánudag: Líkur á stífri norðlægri átt með slyddu eða snjókomu N-lands, en úrkomulitlu veðri syðra. Kólnandi.

Á þriðjudag (haustjafndægur): Útlit fyrir austlæga átt með dálitlum skúrum eða éljum.

Vindstrengir við Hafnarfjall 

Gul viðvörun tekur gildi við Faxaflóa klukkan 15:00 og gildir til klukkan 20:00. „Sunnanhvassviðri 13-20 m/s með hvössum vindstrengjum við fjöll, 25-35 m/s, sérstaklega við Hafnarfjall. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.“

Við Breiðafjörð verður gul viðvörun í gildi frá klukkan 11:00 til 21:00. „Sunnanhvassviðri eða stormur 15-23 m/s með hvössum vindstrengjum við fjöll, 25-35 m/s, sérstaklega á Snæfellsnesi. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.“

Vestfirðir frá klukkan 12:00 til 21:00. „Sunnanhvassviðri eða -stormur 15-23 m/s með hvössum vindstrengjum við fjöll, 25-35 m/s, sérstaklega á heiðum og við Ísafjarðardjúp. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.“

Miðhálendið frá klukkan 12:00 í dag til klukkan 5 í fyrramálið.  „Sunnanstormur 18-25 m/s með hvössum vindstrengjum við fjöll 30-40 m/s, einkum norður af jöklunum. Varasamar aðstæður fyrir ferðamenn og útivistafólk.“

mbl.is