Veiran gæti verið útbreiddari en talið var

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mælist til þess að fólk mæti ekki …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mælist til þess að fólk mæti ekki veikt til vinnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það að 12 þeirra sem greindust smitaðir af kórónuveirunni í gær voru utan sóttkvíar gæti bent til þess að veiran væri útbreiddari í samfélaginu en áður var talið, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Ekki er útlit fyrir að um hópsýkingu sé að ræða, þ.e. við fyrstu sýn virðast smitin ekki öll tengd. Þórólfur leggur áherslu á að fólk sé áfram vart um sig og haldi sig heima finni það fyrir einkennum. 

Skimun mun fara fram innan Háskóla Íslands sem og í samfélaginu á höfuðborgarsvæðinu vegna mikils fjölda nýgreindra smita, að sögn Þórólfs, en 13 innanlandssmit greindust alls í gær. 

4-5 smit tengjast HÍ

4-5 þeirra smita sem greinst hafa á síðustu dögum tengjast Háskóla Íslands og því mun Íslensk erfðagreining (ÍE) framkvæma skimun fyrir veirunni þar. Öll 13 smitin sem greindust í gær greindust á höfuðborgarsvæðinu og því mun heilsugæslan annast skimun þar. 

„Þetta eru flest tilfelli sem ekki er hægt að rekja saman eða sjá í fljótu bragði hvernig hafa smitast,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is. Hann hefur áhyggjur af því að svo margir skuli hafa greinst sem voru utan sóttkvíar.

„Það er merki um að veiran gæti verið útbreiddari í samfélaginu en talið hefur verið. Fjórir til fimm af þeim einstaklingum sem hafa verið að greinast núna undanfarið tengjast Háskóla Íslands svo það hefur verið tekin ákvörðun um að fara í skimun í Háskólanum,“ segir Þórólfur. 

Vilja koma í veg fyrir veldisvöxt

Ástæða fyrir skimun í Háskóla Íslands og á höfuðborgarsvæðinu er sú að almannavarnir og embætti landlæknis vilja geta gripið fljótt inn í, að sögn Þórólfs. 

„Til að fá þetta ekki í einhvern meiri vöxt, hugsanlegan veldisvöxt sem gæti komið í ljós eftir viku eða tvær, og geta þá gripið inn í eins fljótt og hægt er.“

Hafi mætt veikir í vinnuna

Smitin sem greindust í gær virðast öll vera af sama stofni veirunnar. Þórólfur segir ekki útlit fyrir hertar aðgerðir vegna þessa aukna fjölda smita. Hann ítrekar mikilvægi einstaklingsbundinna sóttvarna og annarra aðgerða.

„Við leggjum áherslu á nokkur atriði við einstaklinga. Í fyrsta lagi að fólk sem er veikt, með einkenni sem geta beint til COVID, sé ekki á meðal annarra og mæti til vinnu heldur láti vita af sér og fái sýnatöku. Þetta erum við því miður að sjá með suma af þessum einstaklingum sem eru að greinast. Þeir hafa mætt hálfveikir í vinnuna. Í öðru lagi þarf að brýna fyrir fólki að gæta vel að þessum einstaklingsbundnu sýkingavörnum og líka að vinnustaðir og aðrir gæti vel að hreinsun sameiginlegra áhalda eins og kaffivéla, hurðarhúna og annarra staða sem mikilvægt er að sótthreinsa. Við megum ekki gleyma þessum grundvallaratriðum því annars getum við fljótt farið að sjá einhvern vöxt innanlands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert