Tvö staðfest smit í HÍ

Setberg - hús kennslunnar í Háskóla Íslands.
Setberg - hús kennslunnar í Háskóla Íslands.

Tvö ný kórónuveirusmit hafa verið staðfest hjá starfsfólki á skólasvæði Háskóla Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, sem send var nemendum og starfsfólki skólans í dag.

Smit hefur verið staðfest hjá starfsmanni í Setbergi – húsi kennslunnar og að auki við það smit hjá starfsmanni Hámu á háskólatorgi sem mbl.is greindi frá í gærkvöldi.

Að sögn Andra Ólafssonar, aðstoðarmanns rektors, hafa nokkrir starfsmenn þurft að fara í sóttkví í tengslum við smitið í Setbergi, auk þeirra sem fóru í sóttkví vegna smitsins í Hámu.

Hann gat ekki staðfest heildartölu starfsmanna sem hafa þurft að fara í sóttkví vegna smitanna, en einn nemandi hafi verið sendur í sóttkví í tengslum við smitið í Setbergi.

Andri segir, í samtali við mbl.is, að ekki standi til að breyta námsfyrirkomulagi er kemur að staðnámi eða hópavinnu. Atvikin séu ekki þess eðlis að þurfi að endurskoða slík mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert