Fangaði áfengislausa Bríó-andann best allra

Kristín Marksdóttir er nýútskrifuð úr námi við listaháskóla í Leeds. …
Kristín Marksdóttir er nýútskrifuð úr námi við listaháskóla í Leeds. Hún bar sigur úr býtum í keppni um myndskreytingu á áfengislausum Bríó-bjór. Ljósmynd/Hari

„Ég er alveg himinlifandi. Það var æðislegt að fá þau tíðindi að hafa unnið þessa keppni,“ segir Kristín Marksdóttir sem bar sigur úr býtum í samkeppni um myndskreytingu á dósir hins áfengislausa Bríó sem nú er fáanlegur í verslunum. 

Borg brugghús auglýsti í sumar eftir tillögum að myndskreytingu á Bríó. Tíu ár eru liðin síðan bjórinn vinsæli kom á markað og af því tilefni var gerð áfengislaus útgáfa af honum sem vakið hefur talsverða athygli síðustu vikurnar. Halda margir því fram að þarna sé kominn einhver besti áfengislausi bjór sem fengist hefur hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá Borg brugghúsi hafa þegar selst yfir 30 þúsund dósir, sem hafi verið langt yfir væntingum. Áfengislaus Bríó sé þegar orðinn einn vinsælasti bjór brugghússins.

Myndskreytingin byggir á mynd af hefðbundnu Bríó-dósunum en hefur verið …
Myndskreytingin byggir á mynd af hefðbundnu Bríó-dósunum en hefur verið sett í partígalla.

Mikill áhugi reyndist á samkeppni um útlit dósanna. Alls bárust rúmlega tvö hundruð tillögur að myndskreytingum og var meirihluti þeirra frá konum, eða um 60%. Hugmyndir kvennanna féllu líka betur í kramið hjá dómnefnd brugghússins og svo fór að tillögurnar í fimm efstu sætunum voru frá konum. 

Sigurtillaga Kristínar er uppfærð útgáfa af myndinni sem prýðir hefðbundnu Bríó-dósirnar. „Ég endurteiknaði manninn á þeirri dós og gerði það með smá tvisti; setti á hann klikkuð augu og partíhatt eins og hann væri að fagna tíu ára afmælinu,“ segir Kristín.

Kristín er 23 ára og lauk námi í myndskreytingu við Leeds Art University í vor. Hún sá keppnina auglýsta í Morgunblaðinu og fannst tilvalið að taka þátt í henni. Það skilaði sínu og hlýtur Kristín 407.413 krónur að launum fyrir sigurinn en það jafngildir listamannalaunum í einn mánuð.

Frá því hún útskrifaðist hefur Kristín tekið að sér ýmis verkefni, til að mynda gerð bókakápu og lógó og fleira fyrir nýjan matarvagn sem brátt fer á götu borgarinnar. Þá hefur hún komið upp heimasíðu til að kynna sig og verk sín.

Kristín með þeim Skildi og Kormáki á Ölstofunni. Þeim félögum …
Kristín með þeim Skildi og Kormáki á Ölstofunni. Þeim félögum líst vel á myndskreytingu áfengislausu dósanna þó þeir kjósi eflaust frekar að hafa nokkur prósent í glasinu. Ljósmynd/Hari

„Ég hef alltaf ætlað mér að fara út til Bretlands í nám. Ég er hálfur Breti og langaði að kynnast landinu og þessum uppruna mínum. Það reyndist líka mjög dýrmæt lífsreynsla að fara út í nám og mjög þroskandi.  Nú er ég flutt heim og stefni á að vera hér. Ég hef verið að kynnast íslenskum hönnunarheimi og er tilbúin að láta til mín taka,“ segir Kristín Marksdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert