Skemmtistaðir þungamiðja smitanna

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er að koma betur í ljós að þungamiðjan og ræturnar virðast vera á þessum stöðum, alla vega í þessum faraldri sem er núna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um aukinn fjölda kórónuveirusmita hérlendis. Staðirnir sem hann á við eru skemmtistaðir og krár en þeim hefur nú verið lokað yfir helgina á höfuðborgarsvæðinu. 

21 smit greindist innanlands í gær, 19 á miðvikudag og 13 á þriðjudag. Tveir liggja nú á sjúkrahúsi en þeir eru þó ekki alvarlega veikir og hvorugur á gjörgæslu. Um er að ræða tvo eldri einstaklinga. 

„Ekki vísbending um að þetta sé að fara upp á við“

Spurður hvort þessi mikli fjöldi smita gefi ekki tilefni til hertra aðgerða segir Þórólfur:

„Það er við því að búast þegar farið er í víðtækar skimanir að þá fáum við tilfelli sem við hefðum annars ekki fundið eða fengið seinna. Ég held að það þurfi að skoða þessar tölur í því ljósi. Þetta er ekki vísbending um að þetta sé að fara upp á við. Ég held að með þessu séum við að ná betur utan um þetta og rakningarteymið er að fá betri mynd af þessu. Með þessum aðgerðum og öllu því sem er í gangi núna þá eru mjög góðar líkur á því að hægt sé að ná utan um þetta.“

Þórólfur bendir á að margir þeirra sem eru sýktir af veirunni séu einkennalausir eða einkennalitlir, því finnist þau smit helst þegar ráðist er í skimanir en víðtækar skimanir eru farnar af stað á vegum heilsugæslunnar og Íslenskrar erfðagreiningar. 

„Þess vegna er fjöldi einstaklinga smitaður og veit ekkert af því en við finnum þá núna með þessari skimun. Þess vegna erum við að fá þennan fjölda.“

Munu ekki endilega framlengja lokun skemmtistaða

Þórólfur segir að það komi „ekkert endilega“ til þess að framlengja þurfi lokun skemmtistaða. 

„Það er líka hægt að grípa til hreinsunaraðgerða og svo er hægt að grípa til takmarkandi aðgerða líka þannig að það þurfa ekki endilega að vera lokanir áfram, það á bara eftir að koma í ljós.“

En er þetta tilefni til að setjast niður með eigendum skemmtistaða og fara yfir aðgerðir sem geta takmarkað smit? 

„Það er hlutverk heilbrigðiseftirlitsins að gera það og við munum setja okkur í samband við alla þessa staði um að gæta vel að hreinlætisaðgerðum, loftræstingu og öðru slíku,“ segir Þórólfur sem segir þó ekki endilega útlit fyrir að þeir staðir sem smit megi rekja til hafi ekki sinnt sóttvörnum nægilega vel. 

Einn staður hefur verið nafngreindur í samhengi við smit og er það The Irishman Pub. Þar er karókí herbergi en Þórólfur segir að þeir sem hafi verið á barnum sama kvöld og smitast hafi ekki allir farið í karókí. 

mbl.is

Bloggað um fréttina