Að pota í risann

„Við erum í smá togstreitu; skólarnir og við hin, og …
„Við erum í smá togstreitu; skólarnir og við hin, og það er smá tabú í kringum þetta. Við þurfum bara að vinna öll saman til að gera þetta ótrúlega vel. Og notum rannsóknir sem búið er að vinna í öll þessi ár. Þá verður allt farsælt,“ segir Kristrún Lind Birgisdóttir, sem rekur ráðgjafafyrirtækið Tröppu. mbl.is/Ásdís

Í gamla Amtmannshúsinu á Akureyri býr Kristrún Lind Birgisdóttir ásamt manni, börnum og hundinum Bósa. Hún býður til stofu með dásamlegu útsýni yfir Eyjafjörðinn fagra. Bósi fær smá athygli gestsins áður en hann snýr sér að viðmælandanum, en blaðamaður er mættur norður í land til þess að fræðast um hugsjónir Kristrúnar í menntamálum.

Sem ung kona ætlaði hún aldrei að verða kennari en endaði sem aðstoðarskólastjóri á Vestfjörðum. Þar kviknaði áhuginn á menntamálum fyrir alvöru, og beinist hann nú helst að stjórnun og hugmyndasmíði menntakerfisins. Menntamálin toguðu hana svo í ýmsar áttir, til ólíkra landshluta og alla leið til Hong Kong þar sem hún rak leikskóla.

En nú er Kristrún komin heim á æskuslóðir og enn eru menntamál í brennidepli í lífi hennar. Í dag sinnir hún ráðgjöf til sveitarfélaga sem ráðgjafi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins Tröppu. Í hjáverkum vinnur hún sem skólastjóri leikskóla í Hong Kong en einnig hefur hún skipulagt netskóla, sem hún vill opna sem fyrst. Eftir langa reynslu í menntamálum hefur Kristrún sterkar skoðanir á því hvernig góður skóli eigi að vera.

Þurrkaði krítina af töflunni

Kristrún á ekki langt að sækja áhugann.

„Ég er alin upp í grunnskólanum á Árskógsströnd þar sem pabbi var skólastjóri, þannig að ég er fædd inn í skóla. Foreldrar mínir bjuggu fyrst í skólastjóraíbúð í skólanum og ég hjálpaði við að þurrka krítina af töflunni þegar mamma var að skúra skólann á kvöldin. Ég plastaði bækur á haustin og hjálpaði pabba að taka skólabækur upp úr kössum, sem sendar voru frá Reykjavík,“ segir Kristrún en foreldrar hennar eru Birgir Sveinbjörnsson og Rósbjörg Jónasdóttir.

Ég var reddarinn

Þegar Kristrún var á þrettánda ári flutti fjölskyldan til Akureyrar þar sem faðir hennar tók við starfi aðstoðarskólastjóra Barnaskólans á Akureyri.

„Þá tók lífið við á Akureyri og duttum við bróðir minn inn í skíðamennskuna hér. Við áttum hér góð ár. Ég fór fyrst í Menntaskólann á Akureyri og féll með glans,“ segir hún og brosir.
„Ég fór þá að vinna í Hlíðarfjalli að steikja franskar og kenna á skíði, en ég hafði æft skíði lengi. Ég hélt svo áfram að vinna við það í gegnum alla skólagönguna, en ég fór svo í Verkmenntaskólann. Þar get ég ekki sagt að ég hafi lært neitt nema að skipuleggja félagslífið og reka fyrirtæki,“ segir hún.

„Ég eyddi ómældum tíma með kvikmyndaklúbbnum Filmunni. Ég var reddarinn, ein meðal strákanna. Við bjuggum til auglýsingar og stuttmyndir; við gáfum út blöð, fórum í beinar útsendingar og vorum stöðugt í skemmtanahaldi,“ segir Kristrún og segist hafa lært heilan helling í fyrirtækjarekstri.

„Ég hef sagt við gömlu kennarana mína: „Ég útskrifaðist úr Verkmenntaskólanum sem framkvæmdastjóri en þið tókuð ekki eftir því.“ Á þeim tíma kom enginn auga á það. Auðvitað gat ég alveg lært; ég hafði bara engan tíma til þess. Við vorum þarna nokkur sem vorum stöðugt að og það fóru milljónir í gegnum hendur okkar í nemendafélaginu. Við vorum í blússandi rekstri. Það er dýrmætasta reynslan sem ég fékk úr skólagöngunni; að sjá um bókhald og reka fyrirtæki,“ segir Kristrún og hún segir að klassískt nám henti alls ekki öllum og eigi heldur ekki að gera það.

„Við þurfum að skapa hvetjandi og skemmtilegt umhverfi og þá stöðvar mann enginn.“

Aðstoðarskólastjóri á Vestfjörðum

Kristrún hóf háskólanám í táknmálsfræðum því einkunnir hennar voru ekki nógu góðar til að komast inn í Kennaraháskólann í fyrstu tilraun, en hún komst svo síðar inn í það nám.

„Ég fór svo í Kennó af því að mér datt ekkert annað í hug. Mig langaði ekkert að vera kennari. Ég lét mig bara hafa þetta og það kom ekkert annað til greina en að klára námið. Ég var búin að ákveða að fara ekki að kenna að námi loknu en svo voru „veiðidagar kennara“ þar sem skólastjórar utan að landi komu í skólann að fá kennara til sín út á land. Ég labbaði þarna um hrokafull og hitti þá konu sem var með meira og krullaðra hár en ég. Hún var ekki með neitt í básnum og var ekki að gefa neitt eins og hinir, nema hún var með lyklakippur sem á stóð: Skíðafélag Önundarfjarðar. Hún byrjaði að fara með lofræður um Vestfirði en ég hafði aldrei komið þangað, fyrir utan eitt sinn sem ég keppti þar á skíðum. Ég sagði henni að ég myndi ekki koma nema ég fengi skólastjórastöðu og áður en ég vissi af var ég búin að ráða mig vestur í Önundarfjörð sem aðstoðarskólastjóri sameinaðs grunnskóla í Holti í Önundarfirði og á Flateyri,“ segir hún og brosir.

Blint stefnumót endar í Hong Kong

Meistaragráða Kristrúnar er í menntunarfræðum með áherslu á kennsluaðferðir og stjórnun menntastofnana. Kennsla heillaði Kristrúnu ekki, heldur frekar hugmyndafræðin á bak við kennsluna.

„Ég sá að verkefnið fyrir höndum var kannski meira að breyta skólakerfinu. Ég fékk áhuga á stóru myndinni og hvað væri hægt að gera öðruvísi. Á Flateyri höfðum við verið að vinna með að velta náminu meira yfir á nemandann og tengja það samfélaginu og innleiddum morgunstundir með söng. Lífsleikni var að ryðja sér til rúms og ég hafði auga fyrir því að hugsa skólastarf svolítið öðruvísi,“ segir Kristrún sem var fengin til að innleiða lífsleikni í skólum í kjölfarið. 

„Með tímanum, og sérstaklega eftir að ég var úti í Hong Kong, fékk ég miklu betri innsýn í hæfnimiðað nám. Þar fer ég að ígrunda þetta sem heildstæða starfsháttabreytingu,“ segir Kristrún sem fór að vinna í Lindaskóla þar sem hún kynnti þeim þessar aðferðir. Þá var Kristrúnu boðið starf aðstoðarmanns þáverandi samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar, og þáði starfið.

„Það var á svipuðum tíma og ég kynntist manninum mínum á blindu stefnumóti. Vinkonur mínar sendu mig á stefnumótið og sögðu að ég þyrfti svo aldrei að sjá hann aftur; ekki nóg með að hann væri leiðinlegur, heldur byggi hann líka úti í Hong Kong,“ segir hún og skellihlær.

„Hann mætti í nýjustu tísku, hár og myndarlegur. Við fórum í ísbíltúr sem endaði klukkan þrjú um nóttina. Og þar með var það komið,“ segir hún sposk, en þess má geta að maður hennar er Bjarki Viðar Garðarsson athafnamaður.

„Bjarki vann á þeim tíma hjá Prómens í Hong Kong og til að gera langa sögu stutta enda ég þar ári seinna. Ég ákvað að stökkva.“

Aldrei staldrað lengi við

„Ég fór að vinna fyrir Landsbankann árið 2007, en þá var verið að setja upp útibú í Hong Kong og Singapúr. Ég var skrifstofustjóri sem var mjög skemmtilegt. Það var allt á fullu. Svo hrynur allt en þetta var gott eitt og hálft ár. Þá voru um 35 starfsmenn í Hong Kong og um tuttugu í Singapúr. Eins og við þekkjum var skellt í lás yfir nótt,“ segir hún.

„Það var gaman að kynnast þessum borgum og dýrðlegt að búa í Hong Kong, en ég bjó þar í ellefu ár. Hong Kong er New York austursins. Börnin mín fæddust þarna 2009 og 2011 og hafði ég því nóg að gera að sinna börnum. Ég hef aldrei staldrað lengi við á neinum stað, þannig að það var ekkert stórmál þótt starfið hjá bankanum hyrfi, þótt auðvitað hafi þetta verið leiðinlegt,“ segir Kristrún.

„Við höfðum allt aðra sýn á hrunið, búandi erlendis, og Bjarki var á kafi í vinnu. Ég fór svo að vinna á foreldrareknum leikskóla sem ég tók svo við og er reyndar ennþá skólastjóri þar í dag,“ segir hún.

Potast í skólamálum

Ævintýrið í Hong Kong tók enda og fjölskyldan flutti heim. 

„Á þessum tíma er ég farin að vinna með vinkonu minni, Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, við skólaráðgjöf. Ég hafði byrjað á því í meistaranáminu að hjálpa sveitarfélögum að reka skóla. Þannig að heilu ári áður en við seljum fæðingarstofuna er ég byrjuð að fljúga til Íslands til að sinna því,“ segir hún og segist hafa viljað fara heim til að „potast í skólamálum“, eins og hún orðar það.

„Mig langaði að taka þátt í kerfisbreytingu því ég var búin að sjá hvernig það gæti átt sér stað. Í Hong Kong eru alveg rosalega hæfir kennarar og skólarnir flottir. En málið er að íslenska skólakerfið er svo frábært að því leyti að við eigum svo frábært húsnæði, vel menntaða kennara og fólk sem er í samanburði við heiminn moldríkt. Við þurfum rétt að spýta í lófana til þess að skólakerfið hér geti skarað fram úr. Ég byrjaði að sjá fyrir mér hvernig væri hægt að koma af stað þessari breytingu og á þeim grunni kom ég heim og stofnaði þetta fyrirtæki, Trappa ráðgjöf,“ segir hún og útskýrir að ráðgjöfin styðji sveitarfélög, fræðslunefndir, skólastjórnendur og kennara til að innleiða menntastefnu ríkisins eins og hún birtist í lögum og aðalnámskrá.

Börn þurfa að bera ábyrgð

Nú ertu komin með góða yfirsýn yfir menntakerfi Íslands. Hvað finnst þér gott og hvað mætti bæta?

„Umgjörðin er frábær og það er í raun margt gott í gangi. Verkefnið er að ræða starfshætti. Hvaða vinna fer fram með nemendum? Það er mikið rætt um læsi og að börn kunni ekki að lesa. Ég held að lesturinn sé í raun ekki vandamálið, heldur hvernig við látum börn vinna með tungumálið. Eru börnin að tala í skólanum eða erum við stöðugt að sussa á þau. Eru þau látin bera ábyrgð á sínu námi og fá þau að bera hugmyndir sínar á borð eða erum við að bíða eftir að þau fylli í einhverjar eyður? Það hefur verið farið í kringum þessa hluti á Íslandi. Ég hugsa að mjög fáir kennarar á Íslandi geti vottað það að einhver hafi komið og metið hjá þeim kennsluna, og hvað megi betur fara. Það hlýtur að vera erfitt að fá ekki stuðning við það hvað séu fyrirmyndarstarfshættir í kennslustofu,“ segir hún og segir vera til nægar rannsóknir og gögn sem hægt sé að nota til þess að bæta starfshætti.

Kristrún hefur unnið í menntamálum í áratugi og hefur brennandi …
Kristrún hefur unnið í menntamálum í áratugi og hefur brennandi áhuga á að bæta menntakerfi Íslendinga. mbl.is/Ásdís

„Börn þurfa að læra að bera raunverulega ábyrgð á sínu námi. Þau þurfa að fá að fara út um borg og bý með sitt nám. Að fá að leysa verkefni sem við vitum að þau geti ekki leyst, því það er nám sem felst í því. Að þau geri tilraunir sem misheppnast,“ segir Kristrún og hún segir að slíkt efli unga fólkið.

Einmana risinn

Kristrún segir Íslendinga hafa allt sem þarf til að vera með bestu skóla heims; aðeins vanti herslumuninn.

„Ég vil geta litið til baka og horft yfir landið og sagt: „Við stuðluðum að þessum breytingum.“ Mér líður eins og ég sé að pota í einmana risa, sem er samt vel í holdum og hefur allt til alls, en það þarf samt aðeins að pota í hann svo hann standi upp og hristi af sér slenið. Við erum í smá togstreitu; skólarnir og við hin, og það er smá tabú í kringum þetta. Við þurfum bara að vinna öll saman til að gera þetta ótrúlega vel. Og notum rannsóknir sem búið er að vinna í öll þessi ár. Þá verður allt farsælt.“

Ítarlegt viðtal er við Kristrúnu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »