Búast við að aðgerðir verði hertar

Aníka Eyrún og Arnar Pétur með börn sín tvö, Sigurð …
Aníka Eyrún og Arnar Pétur með börn sín tvö, Sigurð Pétur og Heklu Maríu. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem fólk furðar sig mest á er að mega ekki hitta fleiri en sex í einu úr fjölskyldunni eða vini en það getur samt farið á pöbbinn,“ segir Arnar Pétur Stefánsson sem búsettur er í Liverpool.

Kórónuveirusmitum hefur fjölgað hratt á Englandi að undanförnu og ástandið versnað. Nú mega ekki fleiri en sex koma saman, grímuskylda er í verslunum og afgreiðslutími verslana og kráa hefur verið skertur.

Arnar segir að flestir búist við því að farið verði í hertar aðgerðir á ný á næstunni. Hann kveðst þó telja að yfirvöld muni forðast það að loka skólunum aftur. Sem kunnugt er var bresku samfélagi að mestu lokað frá miðjum mars og fram á sumar.

Misvísandi skilaboð stjórnvalda

„Það eru eiginlega tvær týpur af fólki hérna; þeir sem fylgja öllum reglum og gagnrýna þá sem gera það ekki. Og svo þeir sem gera þveröfugt,“ segir Arnar um það hvernig fólk taki í sóttvarnaaðgerðir yfirvalda. Hann segir að misvísandi skilaboð frá ríkisstjórninni hafi ruglað fólk og margir viti ekki hvaða reglum þeir eigi að fylgja lengur. „Sem dæmi ákvað ríkisstjórnin að allir ættu að fara út að borða og bauð 50% afslátt. Svo fjölgaði tilfellum og þá var það unga fólkinu að kenna fyrir að vera úti og fylgja ekki reglum,“ segir Arnar. Hann segir aðspurður að enginn virðist framfylgja reglum um grímuskyldu í verslunum eða um sjö manna samkomubann.

Vilja vera áfram í Bretlandi

Arnar og fjölskylda hans hafa verið búsett í Liverpool í fimm ár. Hann er sjálfstætt starfandi tónlistarmaður, vinnur til að mynda mikið í leikhúsum en hefur ekki fengið eitt einasta verkefni síðan í mars. Kona hans, Aníka Eyrún Sigurðardóttir, starfar við heimahjúkrun. Arnar segir að það hafi að sumu leyti komið sér vel að hann var heima því þá gat hann sinnt heimakennslu fyrir börn þeirra tvö, tíu og sex ára, meðan skólar voru lokaðir.

„Planið er að reyna að tóra hérna og vona að þetta gangi yfir. Mikið af minni vinnu hefur verið endurskipulagt fyrir næsta ár. Okkur líður yfirhöfuð vel í Englandi en svo verðum við að sjá hvað gerist um áramótin þegar brexit-brandarinn tekur að fullu gildi.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. september. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert