Bifröst opnar fyrir umsóknir á miðri önn

Háskólinn á Bifröst.
Háskólinn á Bifröst. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Háskólinn á Bifröst hefur opnað fyrir umsóknir um nám við skólann, nemendur geta hafið nám seinni hlutann í október enda skiptist kennslumisserin bæði vor og haust í tvær lotur.Kennsla hefst í lotu 2 þann 19. október og þetta er í fyrsta skipti sem háskóli opnar fyrir umsóknir nýnema á miðri önn og segir rektor skólans að þetta sé gert til þess að bregðast við atvinnuástandinu sem skapast hefur vegna kórónuveirufaraldursins.

Líta stjórnendur skólans svo á að greiður aðgangur að háskólanámi geti skipt sköpum fyrir fólk sem misst hefur vinnu.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir fólk til þess að máta sig við þá hugmynd um hvort það vilji stunda nám við skólann. Gríðarlega margir búa nú við óvissu vegna þess ástands sem komið er upp og teljum við að margir geti nýtt sér þessa leið okkar,“ segir Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst.

Einskonar gluggi

Fólki gefst nú kostur á því að skrá sig í stök námskeið í gegnum símenntunarstöð skólans, bæði í grunnnámi og meistaranámi. Þá segir Margrét að námskeiðin, sem eru einingabær, geti orðið fyrsta varðan að háskólanámi nemenda við Bifröst. Þannig geti nemendur svo sótt um frekara nám strax um áramótin og munu þá námskeiðin vera metin inn í námsferil viðkomandi nema.

„Þátttaka í þessum námskeiðum getur verið sem einskonar gluggi þar sem fólki gefst kostur á að hefja háskólanám með stuttum fyrirvara. Svo fá þeir nemendur sem kjósa að hefja ekki frekara nám við skólann skjal sem staðfestir þátttöku þeirra á námskeiðum Námsgluggans,“ segir Margrét.

Seinni lota haustannar hefst 19. október næstkomandi og er fólki frjálst að skrá sig á vefsíðu skólans. Margrét segir það í takt við frumleika þessa fyrirkomulags hve frumlegir og áhugaverðir áfangarnir við skólann eru.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst.
Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst. mbl.is/Rósa Braga

Fjölbreytt og frumleg námskeið

Sem dæmi er boðið upp á áfanga í meistaranámi við félagsvísinda- og lagadeild undir yfirskriftinni Húmor og jafnrétti í stjórnun. Námskeiðið er kennt af Sigrúnu Lilju Einarsdóttur dósent og Eddu Björgvinsdóttur grínista.

„Svo erum við að fara af stað með námskeið sem heitir Áfallastjórnun, en það er gert í samvinnu við björgunarsveitirnar, Rauða Kross Íslands, slökkviliðið og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þar gefst fólki kostur á því að læra hvernig megi takast á við erfiðar aðstæður af yfirvegun. Það hefur svo sannarlega sýnt sig á síðustu misserum að slík þekking er algjörlega ómissandi.“

Margrét segir jafnframt að stjórn skólans hafi þótt tilvalið að hleypa fleiri nemendum inn vegna þeirra aðstæðna sem kórónuveirufaraldurinn hefur skapað.

„Háskólinn á Bifröst er skóli tækifæranna og hér er ekki allt greypt í stein. Við vildum bregðast við þessu ástandi með því að hleypa fleirum að og sýna þarmeð samfélagslega ábyrgð,“ segir Margrét.

Nám í fallegu umhverfi

Guðjón Ragnar Jónasson, forstöðumaður háskólagáttar og símenntunar við Háskólann á Bifröst, segir að nemendum við skólann gefist einstakt tækifæri til þess að stunda nám við opinn og sveigjanlegan háskóla sem standist kröfur nútímans.

Hann segir marga nemendur vilja dvelja á Bifröst og að hann forðist að tala um staðnám eða fjarnám í þeim efnum. Háskólinn bjóði einfaldlega upp á nám og nemendur stýri því svo að mestu leyti sjálfir hvernig því sé háttað.

„Það er svo gott að vera í svona lifandi og skemmtilegum skóla. Margir vilja búa á Bifröst og sinna sínu námi á staðnum. Hér fá nemendur vinnuaðstöðu til þess að sinna námi sínu eftir eigin höfði. Það er sterkt nemendafélag hérna á Bifröst og er námsandinn og samstaðan eftir því.“

Guðjón segist helst vilja vera í sveitinni og að hann vildi hvergi annars staðar vera en á Bifröst.

„Sveitin er mjög sterk í sálu minni. Ég á íbúð á Klapparstíg en hún er orðin að sumarbústað. Sonur minn hefur því íbúðina út af fyrir sig og segir að pabbi sinn hafi hleypt heimdraganum og flúið í íslenska sveitaloftið,“ segir Guðjón.

Guðjón Ragnar Jónasson, forstöðumaður háskólagáttar og símenntunar við Haskólann á …
Guðjón Ragnar Jónasson, forstöðumaður háskólagáttar og símenntunar við Haskólann á Bifröst. Skjáskot/Facebook

Margrét ítrekar að staðan hjá mörgum sé óljós og því telji stjórn skólans það tilvalið fyrir marga að nýta sér þetta úrræði skólans. Hún segir einnig að nemendum gefist kostur á því að stunda nám í einstöku umhverfi.

„Það eru margir sem eru í dýru leiguhúsnæði og þurfa að búa við krappan kost vegna ástandsins en fólki, sem kemur á Bifröst til þess að stunda nám, gefst auðvitað tækifæri til þess að búa hér í frábæru húsnæði í námunda við skólann. Hér er allt til alls og náttúrufegurðin alltumlykjandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert