Faraldurinn gangi hægt niður

Alma D. Möller landlæknir.
Alma D. Möller landlæknir.

Alma D. Möller, landlæknir, segist vona að faraldur kórónuveiru sé á niðurleið hérlendis en hann muni væntanlega ganga hægt niður. Þetta kom fram í máli Ölmu á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Áfram verða væntanlega daglegar sveiflur í fjölda smita, að sögn Ölmu. Mögulega verður meiri aukning í fjölda smita á næstunni þar sem smitin séu dreifð og ekki séu allir tengdir sem greinst hafa. 

Með víðtækri sýnatöku, öflugri betingu sóttkvíar og fleiri aðgerðum munum við ná tökum á faraldrinum að sögn Ölmu sem telur að með samhentu átaki allra takist að sveigja kúrfuna án þess að grípa til róttækra aðgerða. 

Skemmtistaðir og krár fái að opna

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, mun leggja minnisblað fyrir heilbrigðisráðherra á næstunni. Þar mun hann leggja til nýjar aðgerðir vegna útbreiðslu veiru hérlendis en ekki er útlit fyrir að þær muni breytast mikið frá því sem er nú, þ.e. 200 manna samkomutakmörk, eins metra nándartakmörk o.fl. 

Þórólfur mun leggja til að krár og skemmtistaðir verði opnaðir 28. september en ákveðnar kröfur verði gerðar til hámarksfjölda gesta. Áfram verði opnunartími takmarkaður og stöðunum gert að loka klukkan ellefu á kvöldin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert