Bjargað eftir 10 daga í djúpri gjótu

Fjárhundurinn Tímon í gjótunni.
Fjárhundurinn Tímon í gjótunni. Ljósmynd/Facebook

Miðvikudaginn 16. september hvarf fjárhundurinn Tímon sporlaust þegar verið var að fara yfir sprungið svæði syðst í Blikalónsdal. Tíu dögum seinna var hundinum bjargað úr djúpri gjá, en Tímon var þá óslasaður en svangur eftir harða dvöl. 

Ágústa Ágústsdóttir, eigandi Tímons, greindi frá björguninni á Facebook. Hún segir að eftir að Tímon hafi týnst taldi hún engar líkur á að finna hundinn aftur og að hún hafi vonað að hann hefði fengið skjótan dauða. „Okkur fannst ömurlegt til þess að hugsa að hann lægi lifandi ofan í djúpri kaldri gjá og jafnvel særður,“ skrifar Ágústa. 

Þegar Ágústa hafi þó ákveðið að gera lokatilraun til að finna Tímon tíu dögum eftir hvarfið og hún hafi þá greint hljóð sem hún var þó ekki viss um hvað var. „Færðum við okkur nær stóru sprungusvæði og hlustuðum og kölluðum aftur. Dásamlegt hundagelt barst okkur til eyrna djúpr undir fórum okkar. Hundsgelt frá dýri sem sjálfsagt aldrei hefur verið eins fegið að heyra raddir eigenda sinna,“ skrifar Ágústa. 

„Reyndum við í töluverðan tíma að finna út hvar hann var nákvæmlega því sumstaðar var svo djúpt að ekki sást til botns og erfitt að átta sig. Kom ég þá auga á lítið op, hálfgróið lyngi og gróðri. Ýtti ég gróðrinum frá og lýsti ofan í botn ca 5-6 metra djúprar gjá. Fyrst sá ég ekkert. En þegar ég kallaði vinalega ofan í, birtist kollurinn á Tímon undan stórri steinhellu sem hann lá undir. Mikið lifandis ósköp hlýnaði okkur um hjartað að sjá hann heilan á húfi.“

Ágústa segir að hún hafi þurft að skilja Tímon eftir og koma aftur síðar með tól og tæki til þess að komast niður til hans. Hún hafi síðan komið aftur, hreinsað var frá holunni og löngum stiga rennt niður á botninn. Tímoni var síðan bjargað og Ágústa segir að hann hafi tekið glaður við slátri sem honum var gefið eftir að hafa verið matarlaus í 10 daga. 

Björgun fjárhundsins Tímons. Á miðvikudegi 16. september á öðrum degi fyrstu gangna hvarf fjárhundurinn okkar hann...

Posted by Ágústa Ágústsdóttir on Sunnudagur, 27. september 2020
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert