Gagnabankinn til skoðunar hjá Persónuvernd

Gagnabankinn hefur að geyma safn upplýsinga um hegðun fólksins á …
Gagnabankinn hefur að geyma safn upplýsinga um hegðun fólksins á samfélagsmiðlum. AFP

Persónuvernd mun á næstunni afla upplýsinga um gagnabanka í eigu kínversks fyrirtækis, sem hefur að geyma upplýsingar um hegðun 2,4 milljónir einstaklinga á samfélagsmiðlum og hafa nöfn 411 Íslendinga ratað í gagnabankann. 

„Þarna virðist vera komin á fót síða þar sem opinberum gögnum á netinu er safnað saman,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. 

Spurð hvort persónuverndarlöggjöfin nái yfir mál af þessu tagi segir Helga:

„Útspilið með persónuverndarlöggjöfinni snýst meðal annars um að sé fylgst með aðilum sem staðsettir eru á EES-svæðinu þá er skylt að fara eftir persónuverndarlögum. Þá stendur eftir, hvernig á að fylgja því eftir,“ segir hún. Slíkt komi í hlut persónuverndarstofnana þar sem fyrirtæki eiga höfuðstöðvar.

„Margir tæknirisar eru með evrópsku höfuðstöðvar sínar á Írlandi og þess vegna er írska persónuverndarstofnunin að rannsaka helstu tæknirisana en margir eru einnig með höfuðstöðvar í Lúxemborg. Þess vegna er spurningin sú, hvort þetta kínverska fyrirtæki sé með höfuðstöðvar í Evrópu,“ segir hún og bætir við að stofnunin muni hafa samband við sína samstarfsaðila í Evrópu eftir því sem á þarf að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert