Jón Atli verðlaunaður

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, hlýtur verðlaun IEEE Geoscience and Remote Sensing Society (GRSS) fyrir framlag sitt til menntunar á sviði fjarkönnunar.

Verðlaunin voru afhent í dag á opnunarathöfn árlegrar ráðstefnu GRSS. Ráðstefnan sem ævinlega er mjög fjölsótt er að þessu sinni rafræn með yfir 5.000 þáttakendum. Þetta kemur fram á vef skólans. 

Verðlaunin sem um ræðir nefnast GRSS Education Award. Þau voru sett á laggirnar til að viðurkenna framúrskarandi framlag vísindamanna í fjarkönnun til menntunar á sviðinu, bæði með tilliti til nýsköpunar, þekkingar og heildaráhrifa, m.a. þjálfunar rannsóknanema.

„Jón Atli hefur kennt námskeið og haft marga doktors- og meistaranema á sviðinu, bæði við Háskóla Íslands og erlenda háskóla, en hann hefur átt í víðtæku alþjóðlegu samstarfi á sviði menntunar í fjarkönnun. Við Háskóla Íslands hafa níu doktorsnemar brautskráðst undir hans leiðsögn, margir í samstarfi við erlenda háskóla, en hann starfaði m.a. sem gestaprófessor við Háskólann í Trento á Ítalíu frá árunum 2001 til 2015 og kenndi þar mynsturgreiningu árlega og leiðbeindi framhaldsnemum,“ segir í tilkynningunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert