Sex mánuðir á hvort foreldri

Sæunn Gísladóttir hagfræðingur
Sæunn Gísladóttir hagfræðingur Ljósmynd/Aðsend

Fæðingarorlof verður lengt í 12 mánuði, sem skipt verður jafnt á milli foreldra, sex mánuðir til hvors, samkvæmt drögum að frumvarpi til laga um lengingu fæðingar- og foreldraorlofs sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda á dögunum.

Lenging fæðingarorlofs í tólf mánuði var boðuð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en ekki hefur þó legið fyrir fyrr en nú hversu stóran hluta ætti að eyrnamerkja hvoru foreldri og hve stóran hluta foreldrar ættu að geta skipt sín á milli eftir hentisemi. Nú er ljóst að orlofinu verður skipt jafnt á milli foreldra og ekki gert ráð fyrir að foreldrar geti ráðstafað hluta þess að eigin vali. Þó verður að vísu í boði að sækja um að flytja einn mánuð á milli foreldra. 

Um umtalsverða breytingu er að ræða því lengst af, frá því feðraorlof var kynnt til sögunnar um aldamót, hefur fæðingarorlof á Íslandi verið níu mánuðir; þrír mánuðir eyrnamerktir hvoru foreldri og þrír til skiptanna eftir hentisemi foreldra.

Jöfn skipting lykill að jafnrétti á vinnumarkaði

Sæunn Gísladóttir hagfræðingur skrifaði BA-ritgerð sína frá St. Andrews-háskóla í Skotlandi um nýtingu íslenskra feðra á fæðingarorlofi frá aldamótum til ársins 2013. Í samtali við mbl.is segir Sæunn það fagnaðarefni að í nýju frumvarpi sé fæðingarorlofinu skipt jafnt milli foreldra með þessum hætti.

„Ég fagna því gríðarlega að það sé verið að lengja fæðingarorlofið enda margir í úrræðaleysi með dagvistun að loknu fæðingarorlofi,“ segir Sæunn. „Þá tel ég að jafnari skipting á fæðingarorlofinu muni hafa jákvæð áhrif á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.“

Í fæðingarorlofi eiga foreldrar rétt á 80% af launum, en þó með ákveðnu þaki. Í ritgerð sinni rannsakaði Sæunn áhrif lækkunar þaksins, sem kom til framkvæmda eftir bankahrun, á nýtingu feðra á orlofinu. Sýndi hún fram á skýra fylgni milli lækkunar þaksins og samdráttar í nýtingu feðra á orlofinu. „Konur voru fyrir að nota eiginlega alla þrjá mánuðina sem deilast á milli foreldra,“ segir Sæunn, en með lækkun þaksins hafi nýting karlmanna á eyrnamerktu orlofi þeirra einnig dregist saman.

Um 90% mæðra fullnýta nú þann hluta fæðingarorlofsins sem móðir …
Um 90% mæðra fullnýta nú þann hluta fæðingarorlofsins sem móðir og faðir hafa til skiptanna. Aðeins 11% feðra nýta eitthvað af sameiginlegu mánuðunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði, þakið svokallaða, hafa síðar verið hækkaðar og nema nú 600.000 krónum á mánuði. Þrátt fyrir það er nýting karla á fæðingarorlofi enn mun minni en kvenna, en í grein sem Sunna Símonardóttir, aðjúnkt og nýdoktor í félagsfræði við Háskóla Íslands, og Þorsteinn V. Einarsson kynjafræðingur skrifuðu í Vísi í dag kemur fram að yfir 90% mæðra fullnýti sameiginlegu mánuði fæðingarorlofsins. Þá taki aðeins 11% karlmanna eitthvað af sameiginlegu mánuðunum.

Margir kalla eftir sveigjanleika

Sem fyrr segir eru tillögurnar nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Þegar þetta er skrifað hafa ríflega áttatíu umsagnir borist — og ólíkt því sem venja er, eru þær flestar frá almennum borgurum, en ekki fyrirtækjum, stofnunum eða hagsmunasamtökum.

Flestar eru umsagnirnar á sama máli um að lenging orlofsins sé af hinu góða, en ýmsir setja þó spurningarmerki við þá ráðstöfun að eyrnamerkja allt orlofið með þessum hætti í stað þess að gefa foreldrum meira frelsi til að skipta því sín á milli. 

Þær raddir eiga málsvara á Alþingi því þingflokkur Miðflokksins mun leggja fram breytingartillögu þess efnis að enginn hluti orlofsins verði bundinn tilteknu foreldri, heldur hafi þeir „rétt til að skipta [mánuðunum] með sér eins og hentar barninu best,“ eins og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður flokksins, orðar það í grein í dag.

En úr því karlar fullnýta oft ekki fæðingarorlof nú þegar, er ekki hætt við því að enn fleiri mánuðir verði vannýttir ef fæðingarorlofið verður lengt?

„Auðvitað verður alltaf einhver hópur sem mun ekki nýta sinn rétt að fullu, en vonir okkar standa til þess að breyting á kerfinu verði fyrsta skrefið til að ýta við feðrum,“ segir Sæunn. Þá bendir hún á að konur þurfi oft um hálft ár til að jafna sig eftir barnsburð og brjóstagjöf en að með lengingu fæðingarorlofsins gefist kostur á að feður nýti sinn rétt til orlofs án þess að ganga á það orlof móður.

„Þetta snýst líka um að normalísera það að feður taki lengra fæðingarorlof á sama hátt og það er normalíserað í dag að þeir taki þriggja mánaða orlof því það er eyrnamerkt þeim,“ segir hún.

Uppfært:

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að einstæðir foreldrar ættu rétt á að nýta allt fæðingarorlof. Það er ekki rétt. Í frumvarpsdrögunum er hins vegar gert ráð fyrir því ef barn er ófeðrað.

mbl.is

Bloggað um fréttina