66 sagt upp hjá Hertz

66 starfsmönnum Hertz hefur verið sagt upp.
66 starfsmönnum Hertz hefur verið sagt upp. Ljósmynd/Aðsend

Bílaleigan Hertz á Íslandi hefur sagt upp 66 starfsmönnum. Þetta staðfestir Sigfús Bjarni Sigfússon, forstjóri Hertz, í samtali við mbl.is, en Vísir greindi fyrst frá.

Um 80-90 starfsmenn starfa jafnan hjá bílaleigunni á þessum árstíma, en þegar mest lætur á sumrin hafa starfsmenn verið nær 140.

Sigfús segir að uppsagnirnar hafi verið nauðsynlegar vegna tekjusamdráttar fyrirtækisins og óvissu framundan vegna kórónuveirufaraldursins. Ömurlegt sé að þurfa að grípa til þessara aðgerða. Hann vonast til að geta endurráðið starfsfólk sem fyrst. „Það munu koma ferðamenn til Íslands aftur, og þetta er kjarninn af okkar starfsfólki.“

Starfsmennirnir hafa síðustu mánuði verið á hlutabótaleiðinni en sú aðgerð rennur út í lok næsta mánaðar. Þeir verða nú í fullu starfi á uppsagnarfresti, sem gjarnan er þrír mánuðir, en á þeim tíma greiðir ríkið 85% af launum hafi fyrirtæki orðið fyrir tekjuskerðingu upp á minnst 75%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert