Katrín boðar til blaðamannafundar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við Ráðherrabústaðinn í gær.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við Ráðherrabústaðinn í gær. mbl.is/Arnþór

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur boðað til óformlegs blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu klukkan 11 þar sem hún mun ræða aðgerðir stjórnvalda til stuðnings lífskjarasamningunum.

Eins og greint hefur verið frá, er búist við því að leiðtogar ríkisstjórnarinnar kynni í dag tillögur stjórnarinnar varðandi lífskjarasamningana fyrir aðilum vinnumarkaðarins.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar og Samtaka atvinnulífsins funduðu í Ráðherrabústaðnum í gærmorgun og aftur síðdegis. Eftir fyrri fundinn ákvað forysta SA að fresta atkvæðagreiðslu félagsmanna sinna sem átti að hefjast á hádegi í gær. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vildi ekki tjá sig um efni fundanna, en hann sagðist gera ráð fyrir að þær tillögur sem ræddar voru yrðu kynntar aðilum vinnumarkaðarins fyrir hádegi í dag.

Kalli á sértækar aðgerðir

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði eftir fundinn í gærmorgun að umræðuefni fundarins hefði verið þess virði að þróa áfram og var gærdagurinn nýttur í það. ASÍ og SA hefur greint á um þær forsendur sem liggja að baki lífskjarasamningunum og hvort þær séu brostnar eða ekki. Forsvarsfólk ASÍ ræddi við stjórnvöld símleiðis í gær en enginn formlegur fundur var boðaður. Drífa Snædal sagði í gær að ASÍ hefði aftur á móti ekki rætt við SA í gær. Spurð nánar út í samtöl hennar við stjórnvöld sagðist Drífa ekki vilja tjá sig um þau að öðru leyti en að ASÍ hefði sagt að um sértæka kreppu væri að ræða sem kallaði á sértækar aðgerðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina