3,3 milljarða viðbótarframlög til sveitarfélaga

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

Ríkissjóður mun veita sveitarfélögum landsins rúmlega 3,3 milljarða kr. viðbótarframlög vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á fjárhag sveitarfélaga. Heildarstuðningur ríkisins til viðspyrnu fyrir sveitarfélögin vegna fjárhagsvanda þeirra verður samtals 4,8 milljarðar að því er fram kemur í nýju samkomulagi ríkisins og sveitarfélaganna.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, greindi frá samkomulaginu í ávarpi við upphaf fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í morgun. Hún sagði að vinnan hafi ekki verið einföld eða auðveld og þurfti marga fundi og mörg símtöl áður en niðurstaða náðist. Fulltrúar sambandsins hefðu gjarnan viljað fá meiri og stærri framlög frá ríkinu en metið það svo að lengra hefði ekki verið komist.

Fjármálaráðstefnan fer fram í gegnum fjarfundarbúnað en haft er eftir Aldísi í frétt Sambands íslenskra sveitarfélaga að sá stuðningur sem ríkisstjórnin hafi kynnt sé að mestu sértækur og muni nýtast í tilteknum málaflokkum en sé fjarri því að leysa þann vanda sem flest sveitarfélög standi frammi fyrir. Sú staða sem komin sé upp í fjármálum sveitarfélaganna krefjist endurmats á forsendum útgjalda og tekjuöflunar vegna þeirra auknu skuldsetningar sem framundan er en hætta sé á að draga þurfi úr þjónustu á vegum þeirra.

50 milljarða króna lánsfjárþörf

Fram kom í máli Karls Björnssonar, framkvæmdastjóra sambandsins, í morgun að greining á fjárhagslegum áhrifum faraldursins á sveitarfélögin sýni að það stefni í 33,2 milljarða kr. lakari afkomu sveirarfélaganna á yfirstandandi ári. Þessu verði mætt með nýjum lántökum upp á 22,7 milljarða kr. auk þess sem gengið verði á handbært fé upp á 10,5 milljarða. Lánsfjárþörf sveitarfélaganna í ár og á næsta ári verður um 50 milljörðum kr. meiri en fjárhagsáætlanr gerðu ráð fyrir.

Grípa þarf til ráðstafana vegna skulda

Í umfjöllun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um samkomulagið við sveitarfélögin segir að heildarafkoma A-hluta sveitarfélaga muni versna verulega og verða neikvæð um 1,1% af vergri landsframleiðslu á þessu ári, 1,1% á næsta ári og 0,8% á árinu 2022.

Skuldir A-hluta sveitarfélaga geti farið í 7% af landsframleiðslu á yfirstandandi ári og 8,3% á árinu 2022. Grípa þurfi til afkomubætandi ráðstafana til að skuldir sveirarfélaganna haldi ekki áfram að vaxa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert