Vill náða þá sem beðið hafa lengi eftir afplánun

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hyggst leggja fram tillögu til náðunarnefndar um að einstaklingar sem beðið hafa eftir að hefja afplánun í meira en þrjú ár verði náðaðir. Það gildir þó einungis um þá einstaklinga sem ekki hafa dæmdir fyrir stórvægileg brot eða hlotið nýjan dóm.

„Ég hyggst leggja fram tillögu til náðunarnefndar svokallaðrar um að einstaklingar sem beðið hafa eftir að hefja afplánun í lengur en þrjú ár verði náðaðir, með þeim skilyrðum að þeir hafi ekki hlotið dóma fyrir alvarleg brot eða verið dæmdir að nýju,“ segir Áslaug í samtali við mbl.is.

Tillögurnar segir Áslaug vera afrakstur starfshóps sem hún skipaði um málið.

„Þessar tillögur verða ekki að frumvarpi og að yfirferð náðunarnefndar lokinni munu þær fara fyrir ríkisstjórnina og síðar forseta. Með þessu mætti stytta boðunarlista um afplánun þónokkuð og tel ég nauðsynlegt að gera þetta nokkrum sinnum á næstu þremur árum.“

Gildi einungis um smávægileg brot

Áslaug segir að ef til þessa úrræða væri gripið í dag gætu um þrjátíu einstaklingar átt von á því að verða náðaðir. Hún segir að aðeins sé um að ræða þá sem dæmdir hafa verið fyrir smávægileg brot.

„Það geta verið ítrekuð umferðarlagabrot, smávægileg fíkniefnalagabrot, minniháttar þjófnaðir eða annað slíkt. Það kemur ekki til greina að náða þá sem dæmdir hafa verið fyrir alvarlegri brot á borð við manndráp, kynferðisofbeldi, alvarleg ofbeldisbrot, stórfelld fíkniefnalagabrot eða annað slíkt.“

Refsing í sjálfu sér að bíða afplánunar

Áslaug segir að ekki hafi áður komið til svona kerfisbundinna náðana nema þegar um tilfelli almenns eðlis sé að ræða. Hún vonast til þess að geta séð afrakstur vinnu ráðuneytisins í þessum málum von bráðar. Hún segir jafnframt að það geti valdið fólki hugarangri að bíða lengi eftir afplánun þegar um minniháttar brot er að ræða.

„Það má segja að það sé refsing í sjálfu sér að bíða lengi eftir afplánun. Það getur valdið fólki miklu hugarangri að þurfa að bíða afplánunar lengi.

Ég mun leggja fram tillögur núna í haust og vonandi strax á nýju ári aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert