Þriðja bylgja meiri áskorun en sú fyrsta

„Ef horft er til fyrri reynslu má búast við að …
„Ef horft er til fyrri reynslu má búast við að um fimmtungur hópsins þurfi gjörgæslumeðferð. Það er talsverð áskorun í ljósi þess að nú er samfélagið að mestu í fullum gangi og álag á gjörgæslur nokkuð hefðbundið“, segir í minnisblaðinu. mbl.is/Kristján H. Johannessen

Landspítali stendur frammi fyrir talsvert meiri áskorun nú í upphafi þriðju bylgju Covid-19 en í fyrstu bylgju faraldursins hérlendis. Þetta kemur fram í minnisblaði sem viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala sendi sóttvarnalækni í síðustu viku. 

Það er mat sérfræðinga Landspítala að búast megi við því að um miðjan októbermánuð verði staðan sú að allt að 30 einstaklingar þarfnist innlagnar á spítalanum.

Að sögn Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns forstjóra Landspítala, getur spítalinn teygt sig mjög langt og raunar umfram svörtustu spár eins og þær stóðu síðast. Fyrir því séu þær forsendur að aðrir sjúklingar, sér í lagi þeir sem ekki þurfa lengur á þjónustu spítalans að halda, komist frá honum.

Álag á bráðamóttöku alvarleg birtingarmynd vandans

Í minnisblaðinu kemur fram að það sem gerði spítalanum kleift að ganga í gegnum fyrstu bylgju faraldursins var að þjóðfélagið var þá í hægagangi með þeim áhrifum að mjög fáir sem ekki voru veikir af Covid-19 þurftu á gjörgæslumeðferð að halda. 

Í minnisblaðinu er farið yfir flæðisvanda spítalans sem einkum felst í því að ekki næst að útskrifa fólk af spítalanum sem þarf að útskrifa í önnur úrræði, t.a.m. á hjúkrunarheimili.

„Fyrstu mánuði þessa árs var um að ræða rétt um fimmtung þeirra sem á spítalanum lágu. Hefur þetta leitt til þess að bráðalegudeildir spítalans hafa flestar verið með nýtingu vel yfir 100% síðustu misseri en æskilegt er að nýtingin liggi á bilinu 80-85%. Alvarleg birtingarmynd þessarar stöðu hefur verið mikið álag á bráðamóttöku spítalans þar sem sjúklingar hafa þurft að bíða í óviðunandi tíma eftir því að komast á viðeigandi bráðalegudeildir,“ segir í minnisblaðinu. 

Með það að markmiði að leysa flæðisvandann skipuðu heilbrigðisráðherra og forstjóri Landspítala átakshóp sem hafði það hlutverk að gera tillögur um úrbætur og skilaði hópurinn áliti í febrúar síðastliðnum.

„Landspítali og ráðuneytið hafa fyrir sitt leyti unnið að tillögum í kjölfar þessarar vinnu en flestar þeirra eru þess eðlis að áhrifanna mun gæta til meðallangs og langs tíma. Í upphafi Covid-19-faraldurs biðu um 100 einstaklingar eftir hjúkrunarrými á vegum Landspítala auk um 40 sem biðu annarra úrræða. Í ljósi þeirrar stöðu sem mönnum var ljós á þeim tíma, þ.e. að Landspítali yrði að geta útskrifað útskriftarhæfa einstaklinga til að bregðast við þunga Covid-19-faraldursins, var það ákvörðun heilbrigðisráðherra að einstaklingar sem biðu á Landspítala fengju forgang á hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg. Var það hjúkrunarheimili opnað hinn 28. febrúar og útskrifuðust um 30 einstaklingar af Landspítala á hið nýja heimili á örfáum dögum. Þá beitti ráðuneytið sér fyrir því að 10 aðrir einstaklingar fengju hjúkrunarrými á öðrum heimilum.“

Fáar innlagnir og komur á bráðamóttöku í fyrri bylgju

Í fyrstu bylgju faraldursins hérlendis byggðist viðbragð Landspítala að miklum hluta á því svigrúmi sem þessi staða bauð, en einnig hafði áhrif sú staðreynd að valaðgerðum var hætt og almennt hægðist á öllu í samfélaginu, vegna víðtækra sóttvarnaaðgerða, sem m.a. sást á færri slysum og almennt minni eftirspurn eftir hefðbundinni þjónustu Landspítala. 

„Ekki síst var áberandi að innlagnaþungi vegna non-Covid-sjúklinga á gjörgæslur var mjög takmarkaður og komur á bráðamóttökur með allra minnsta móti. Þetta sést t.d. í starfsemistölum Landspítala og þeirri staðreynd að rúmanýting spítalans í heild var 97,5% í mars og 97,2 í apríl 2019 en var 87,6 í mars og 82,6% apríl 2020,“ segir í minnisblaðinu. 

„Landspítali stendur frammi fyrir talsvert meiri áskorun nú í upphafi þriðju bylgju í viðbragði sínu vegna fjölgunar Covid-19-smita í samfélaginu og þess álags sem þegar er orðið og fyrirsjáanlegt er á næstu vikum.“

Biðtími eftir innlögn af bráðamóttöku lengst

Það orsakast af nokkrum ástæðum. Fyrir það fyrsta er fjöldi þeirra sem bíða eftir hjúkrunarrýmum og öðrum úrræðum nú sá sami og var í lok febrúar 2020. Í öðru lagi er álag á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi sambærilegt og þá var og biðtími sjúklinga eftir innlögn af bráðamóttöku hefur lengst mjög hratt síðustu daga. Í þriðja lagi er nú hefðbundin nýting á rýmum á gjörgæslum fyrir sjúklinga sem ekki voru veikir af Covid-19.

„Það er mat sérfræðinga Landspítala að búast megi við að um miðjan októbermánuð verði staðan sú að allt að 30 einstaklingar þarfnist innlagnar á spítalanum. [...] Skv. áætlun Landspítala myndi þetta kalla á að þrjár bráðalyflækningadeildir þyrftu að breyta starfsemi til að mæta þörfum Covid-19-sjúklinga. Ef horft er til fyrri reynslu má búast við að um fimmtungur hópsins þurfi gjörgæslumeðferð. Það er talsverð áskorun í ljósi þess að nú er samfélagið að mestu í fullum gangi og álag á gjörgæslur nokkuð hefðbundið,“ segir í minnisblaðinu.

„Ljóst er að mönnun viðbragðsins er talsvert meiri áskorun nú en í vor, vegna þess að þá var dregið úr skipulögðum skurðaðgerðum og göngudeildum lokað. Styrkleikar Landspítala felast í þeirri staðreynd að gagnreynt skipulag, aukin þekking og búnaður er til staðar ásamt þrautreyndu starfsfólki. Viðbragð samkvæmt flæðiriti var uppfært í maí síðastliðnum. Faglega er því ekkert Landspítalanum til fyrirstöðu.“

Lykilatriði að fólk fái þjónustu á viðeigandi stað

Að mati viðbragðsstjórnar og farsóttanefndar er ljóst að mikilvægt sé að draga úr nýgengi sjúkdómsins í samfélaginu.

„Landspítali hefur þegar dregið úr valstarfsemi og göngudeildarstarfsemi vegna þeirrar stöðu sem upp er komin. Stíga þarf frekari skref í þá átt svo unnt sé að efla þjónustu við bráðveika, sérstaklega þá sem alvarlega eru veikir af Covid-19. Afar áríðandi er að heilbrigðis- og velferðarkerfið vinni saman sem þéttriðið net og með samhæfðum hætti til að geta brugðist við þessum vágesti, jafn vel og í fyrstu bylgju faraldursins,“ segir í minnisblaðinu.

„Lykilatriði í því viðbragði er að fólk fái þjónustu á viðeigandi stað. Þetta kallar á samstarf allra aðila, til að aðeins þeir veikustu séu á Landspítala og aðrir fái þjónustu á viðeigandi þjónustustigi. Til að Landspítali geti brugðist við með sama afgerandi hætti og gert var sl. vor er því afar brýnt að þeirri stöðu sem upp er komin hvað varðar sjúklinga sem lokið hafa meðferð á Landspítala sé mætt nú þegar. Útskrifa þarf a.m.k. 35 einstaklinga úr þeim hópi á næstu dögum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert