Sátt eftir níu ára baráttu

Páll Sverrisson.
Páll Sverrisson.

Samkomulag hefur náðst um að ríkið greiði manni bætur vegna birtingar persónuupplýsinga um hann í dómum, sem birtust á vefsíðu dómstólanna. Dómsmálaráðherra hefur beðið manninn skriflega afsökunar á málinu.

„Ég hef talað við marga ráðherra á þeim tíma sem ég hef staðið í þessu og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er eini ráðherann sem gaf sér tíma, leyfði mér að tala og hlustaði þegar ég átti fund með henni,“ segir Páll Sverrisson í samtali við mbl.is.

Mál Páls má rekja til ársins 2011 en þá birti læknir á Austurlandi upplýsingar úr sjúkraskrá Páls í málarekstri fyrir siðanefnd Læknafélags Íslands. Úrskurður nefndarinnar var birtur í Læknablaðinu og á heimasíðu þess. Í úrskurðinum komu fram upplýsingar úr sjúkraskrá Páls, meðal annars sjúkdómsgreining hans við útskrift af tilekinni sjúkrastofnun. Páli voru dæmdar miskabætur vegna birtinga upplýsinga í blaðinu.

Persónuvernd úrskurðaði síðan árið 2017, að vinnsla Héraðsdóms Reykjaness, Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar á persónuupplýsingum Páls við birtingu dóma, sem hann var aðili að, á árunum 2013 og 2016 hefði ekki samræmst lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga en héraðsdómarnir tengdust fyrrgreindu máli.

Páll krafðist í kjölfarið bóta frá dómstólunum og því máli hefur nú lokið með sátt eins og áður sagði.

Ekki staðið í þessu peninganna vegna

Páll vildi í samtali við mbl.is ekki upplýsa hvað bæturnar hafi verið háar en lagði áherslu á, að hann hafi ekki staðið í þessari baráttu peninganna vegna heldur af réttlætiskennd. „Ég ætla engum að ganga þessa leið sem ég hef gengið og ég hef trú á því að Áslaug Arna hafi kjark og þor til að tryggja það,“ segir Páll.

Páll bætir við að stöðugt sé samt verið að birta dóma með viðkvæmum persónupplýsingum á vef dómstólanna eins og nýleg dæmi sanni og niðurstaðan í máli hans hljóti að vera fordæmi um bótaskyldu vegna þess.

Í bréfi, sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur sent Páli, segir að samkomulag við embætti ríkislögmanns um sátt hefði ekki náðst nema vegna þess, að af hálfu ríkisins sé fyrir hendi skilningur á því að misgert hafi verið við Pál, skilningur á þeirri vanlíðan sem það hafi valdið honum og vilji til að bæta úr.

„Ég tel sem dómsmálaráðherra mikilvægt að borgararnir geti leitað til dómstóla með sín mál í trausti þess að vinnsla þeirra sé vönduð og lögmæt að öllu leyti. Um leið og ég fagna því að sáttir hafi tekist, vil ég fá að nota þetta tækifæri til að biðja þig afsökunar á þessu máli og þeim afleiðingum sem það hefur haft fyrir þig,“segir síðan í bréfinu.

Ég er sáttur við Áslaugu Örnu.

Posted by Páll Sverrisson on Fimmtudagur, 15. október 2020
mbl.is