Fólk hvatt til að halda sig sem mest heima

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Tölur um ný smit annars vegar og tölur um fjölda í sóttkví hins vegar gefa til kynna að árangur sé að hafast í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn í þessari þriðju bylgju. Það hefur einungis gerst vegna samstöðu þjóðarinnar í að fylgja þeim reglum, leiðbeiningum og tilmælum sem hafa verið í gildi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalækni. 

Bent er á að fram undan séu vetrarfrí í grunnskólum og þeim fylgi oft ferðalög. Áfram er þeim tilmælum beint til fólks að halda sig sem mest heima og ferðast ekki að nauðsynjalausu. Einnig að forðast hópamyndun í heimahúsum eða orlofshúsum.

Sóttvarnalæknir mælti með því við heilbrigðisráðherra í minnisblaði sínu að halda núverandi aðgerðum áfram næstu tvær til þrjár vikurnar til þess kveða veiruna niður, fækka nýjum smitum og ná að vernda þannig heilbrigðiskerfið.

Í tilkynningunni segir enn fremur að þrátt fyrir að smitum fækki sé of snemmt að hrósa sigri.

Viðbúið er að í komandi viku og þeirri næstu gæti álag á heilbrigðiskerfið farið vaxandi. Því er áríðandi að við höldum áfram að tryggja einstaklingsbundnar smitvarnir. Það er að þvo og sótthreinsa hendur oft og reglulega, virða fjarlægðarmörk sem eru í gildi og nota grímu þar sem ekki er hægt að tryggja tvo metra á milli fólks,“ kemur fram í tilkynningunni.

mbl.is