Kjarval máfur bankar af ákefð

Kjarval máfur bankar hér mjög ákveðinn í þakgluggann.
Kjarval máfur bankar hér mjög ákveðinn í þakgluggann. Ljósmynd/Erik Hirt

Á Kjarvalsstöðum hefur máfur einn gert sig mjög svo heimakominn undanfarin ár. Hann gengur undir nafninu Kjarval máfur og bankar reglulega með goggi sínum í þakglugga svo bergmálar í öllu húsinu. Marentzu Poulsen, sem rekur veitingastaðinn í húsinu, fannst bankið hans fyrst svolítið drauglegt en hún hefur vanist heimsóknum þessa fiðraða félaga.

Hann Kjarval er alveg magnaður máfur. Mér finnst svo krúttlegt að sjá hann þarna uppi utan við gluggann þar sem hann lætur vita af sér með kröftugu banki sínu,“ segir Lovísa Bryngeirsdóttir, starfsmaður veitingastaðarins Klambra bistró á Kjarvalsstöðum, og á hún þar við risastóran sílamáf sem gengur undir nafninu Kjarval máfur meðal starfsfólks hússins. Þessi fiðraði Kjarval hefur gert sig heimakominn á Kjarvalsstöðum undanfarin ár og minnir reglulega á sig með því að banka mjög svo ákveðinn með goggi sínum á stóra þakglugga sem eru í miðálmu hússins, einmitt þar sem veitingastaðurinn er. Þeir sem hafa unnið lengi á Kjarvalsstöðum segja að Kjarval máfur hafi ætíð látið eins og hann eigi húsið, en í seinni tíð sé hann þó minna ágengur, enda farinn að eldast. Marentza Poulsen tók við rekstri kaffihússins fyrir fimm árum og hún segir að sér hafi fyrst fundist hljóðin í máfinum svolítið draugaleg.

„Mér stóð ekki alveg á sama, bankið hans bergmálaði hér um allt hús, en ég er orðin vön þessu núna.“ Lovísa bætir því við að Kjarval máfur og félagar hans viti alveg hvað klukkan slær.

„Ef gestir veitingahússins sitja úti í porti mæta þeir máfarnir alltaf á svæðið þegar klukkuna vantar fimm mínútur í fimm, rétt áður en við lokum. Þeir hinkra kurteisir eftir að fólkið fari og hreinsa svo upp allt sem fallið hefur ætilegt af borðum gesta.“

Fjölskylduvænn staður

Marentza segist kunna því afar vel að reka veitingastað á Kjarvalsstöðum, sem hún segir vera einn af uppáhaldsstöðum sínum í borginni.

„Þetta er svo fallegt hús sem mér er annt um, ég hef komið hingað reglulega á sýningar alveg frá því það var opnað árið 1973. Hannes Kr. Davíðsson teiknaði húsið og þetta er svakalega flottur arkitektúr sem við njótum hér, mér finnst forréttindi að fá að reka veitingastað í þessu fallega húsi,“ segir Marentza og bætir við að hún hafi horft til gamla bæjarins Klambra sem stóð þarna forðum, þegar hún gaf veitingastaðnum nafnið Klambrar bistró.

Marentza og Lovísa á veitingastaðnum Klömbrum bistró sem er í …
Marentza og Lovísa á veitingastaðnum Klömbrum bistró sem er í miðálmu Kjarvalsstaða. Ofan við þær er glugginn þar sem Kjarval máfur mætir reglulega og bankar svo fast að ekki fer fram hjá neinum mbl.is/Árni Sæberg

„Við létum taka kaffihúsið í gegn fyrir tveimur árum og Hanna Stína innanhússarkitekt hannaði þetta með okkur, hún fann þessi fallegu ljós sem eru hönnuð á sama tíma og húsið, þannig að þetta tali allt saman. Leirtauið og húsgögnin, þetta er allt norrænt. Staðurinn hefur tekið stakkaskiptum, hér var venjuleg kaffitería en ég breytti þessu í veitingastað, eða það sem við köllum bistró. Stefnan hjá okkur í matargerðinni er þessi norræna stefna; heimabakaðar kökur, gott kaffi og góður matseðill. Ég er svo heppin að vera með æðislegan yfirkokk, hana Helgu Gabríelu,“ segir Marentza og bætir við að einn af kostum Kjarvalsstaða sé hversu fjölskylduvænn staðurinn er.

„Hér er barnasmiðja þar sem börnin geta leikið sér og á sumrin kann fólk því vel að sitja hér úti þar sem börn geta hlaupið frjáls um túnið, en við opnum út mót suðri og sól og stækkum staðinn á sumrin.“

Kjarval máfur er ekki eini fastagesturinn hjá okkur

Lovísa segir að konur séu mjög duglegar að koma á Kjarvalsstaði og það skapi skemmtilega kvennastemningu.

„Við erum með kvennahópa sem hittast reglulega hér og skoða sýningar og koma á veitingastaðinn í leiðinni.“ Marentz bætir við að hún sé ánægð með að konur kunni að gera vel við sig hversdags og fá sér stundum búbblur og léttvín.

„Kjarval máfur er ekki eini fastagesturinn okkar,“ segir Lovísa og hlær, „við erum með marga aðra fastagesti, meðal annars fólk sem býr hér í göngufæri. Þetta er þeirra hverfiskaffihús og margir borða hér tvisvar til þrisvar í viku. Sumir koma með fjölskylduna í bröns til okkar hverja einustu helgi. Við erum líka með flotta karlahópa sem hittast hér reglulega, hópur karla sem starfa sem ljósmyndarar kemur í morgunkaffi flesta daga og sundkarlarnir okkar koma alltaf á laugardagsmorgnum. Mér finnst gaman að fá fasta hópa, því þá kynnist maður fólkinu og getur spjallað,“ segir Lovísa og Marentza bætir við að þær séu þakklátar og glaðar yfir því hversu staðurinn sé vel sóttur.

„Fólk spyr mikið hvort sé opið hjá okkur núna í Covid, en við erum bundin af lokun safnsins. Okkur finnst grátlegt að hafa þurft að loka, en við ætlum okkur að koma fílefld til baka og vonandi getum við opnað sem fyrst. Þegar við þurftum að loka í apríl, þá var svo gaman að opna aftur, við vorum í stuði og kokkarnir búnir að undirbúa sig. Við ætlum að gera það sama núna; við ætlum að koma inn með matseðil sem tengist árstíðinni og við erum að undirbúa jólin. Við ætlum að vera með jólaplatta og síldina sem ég legg í sjálf, þetta heimagerða sem tilheyrir aðventunni og jólunum. Hér verður notaleg aðventustemning, ef Guð lofar,“ segir Marentza og bætir við að síðasta fimmtudag í hverjum mánuði sé opið hjá þeim til tíu á kvöldin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert