Enginn vilji vera á spítala til langframa

„Þarna er þá hægt að tengja tvennt saman og koma …
„Þarna er þá hægt að tengja tvennt saman og koma hjólum atvinnulífsins aðeins af stað líka þannig að við erum bara spennt að heyra í ráðuneytinu,“ segir Anna Birna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er allt mjög huggulegt og er kannski ekkert síðra en spítalagangur þar sem fólk bíður og er hálfpartinn fyrir í kerfinu og finnur það alveg. Við erum alltaf að taka á móti fólki af sjúkrahúsum á þessi tvö hjúkrunarheimili sem við rekum og við finnum alveg hvað það léttir á fólki að útskrifast af sjúkrahúsinu. Það vill náttúrlega enginn vera þar til langframa,“ segir Anna Birna Jensdóttir, stjórnarformaður Sóltúns öldrunarþjónustu, um hjúkrunarrými sem öldrunarþjónustan hefur boðið heilbrigðisráðuneytinu á hóteli í Reykjavík. 

Um er að ræða 77 hjúkrunarrými sem Sóltún sér fyrir sér að geta opnað í nóvember á Oddsson hóteli. Um er að ræða tímabundna aðstöðu sem hægt væri að reka þar í eitt til tvö ár, til að brúa bilið vegna fráflæðisvanda Landspítala sem er tilkominn vegna skorts á hjúkrunarrýmum. 

„Það kom ákall um daginn frá heilbrigðisráðuneytinu þar sem hjúkrunarheimili voru spurð hvort þau gætu fjölgað hjá sér rýmum. Það var í sambandi við Covid og álag á Landspítalanum en nú bíða um 100 manns þar eftir varanlegri búsetu. Við fórum að skoða þetta og höfðum ekki tækifæri til þess að fjölga á þeim heimilum sem við rekum í dag, sem eru Sóltún hjúkrunarheimili og Sólvangur en við höfum aðgang að tómu hóteli, Oddsson, sem er nýlegt hótel,“ segir Anna Birna í samtali við mbl.is.

„Við teljum að við getum boðið [hjúkrunarrými á Oddsson] til bráðabirgða í eitt eða tvö ár. Það er ekkert annað hjúkrunarrými í byggingu svo það er ekki byrjað neins staðar að gera ráð fyrir því að opna nýtt hjúkrunarheimili eins og var til dæmis gert á Sléttuvegi á þessu ári.“

Oddsson hótel er staðsett við Grensásveg.
Oddsson hótel er staðsett við Grensásveg. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hafa áður mannað starfsemi með litlum fyrirvara

Erindi um málið var sent til heilbrigðisráðuneytisins í síðustu viku. Það er nú til meðferðar í ráðuneytinu og Anna Birna segir um raunhæfan möguleika að ræða, þrátt fyrir að húsnæðið sé vitanlega ekki sérhannað fyrir hjúkrunarrými. Þar sé samt sem áður aðstaða til þess að koma fyrir hjálpartækjum fyrir þá sem þurfa á því að halda, stærðir herbergja eru margvíslegar, öll herbergin bjóða upp á sérbaðherbergi og er einnig að finna borðstofur og sameiginleg rými á Oddsson sem mögulegt væri að nýta í félagsstarf. 

Þannig að þarna er í raun verið að leysa tvenns konar vanda, vanda ferðaþjónustufyrirtækis sem vantar gesti og vanda heilbrigðiskerfis sem vantar herbergi? 

„Já. Hótelið var aðeins opið í sumar en svo var því lokað í haust. Það er bara á bið svo þarna er þá hægt að tengja tvennt saman og koma hjólum atvinnulífsins aðeins af stað líka þannig að við erum bara spennt að heyra í ráðuneytinu,“ segir Anna Birna. 

Hvernig er með mönnun? 

„Við myndum manna þetta, taka að okkur þennan rekstur. Við höfum áður mannað svona starfsemi með litlum fyrirvara svo við treystum okkur alveg til að ráða við það. Fyrir marga er það kannski mesta áskorunin. En við höfum haft mjög góðan meðbyr, Sólvangur og Sóltún. Það er fullmannað hjá okkur og við höfum alveg fulla trú á því að fá fólk með okkur í þetta verkefni.“

Fleiri fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu hafa boðist til að hjálpa til við að leysa vanda Landspítala. Eins og mbl.is greindi frá í gær hefur Heilsuvernd boðið ráðuneytinu 100 hjúkrunarrými. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert