Fjarvinna aukið eftirspurn eftir sérbýli

Flestar íbúðir sem nú eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru …
Flestar íbúðir sem nú eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru komin á síðari byggingarstig. Árni Sæberg

Fjarvinna og aukinn tími heima með fjölskyldu eru taldar til líklegra ástæða þess að eftirspurn eftir sérbýli hefur aukist umfram eftirspurn á fjölbýli. Þetta kom fram á fjarfundi Landsbankans í dag þar sem Þjóðarhagur 2020, ný þjóðhags- og verðbólguspá hagfræðideildar bankans fyrir árin 2020-2023 var kynnt.

Að sögn Unu Jónsdóttur sérfræðings bankans hefur fasteignamarkaður verið líflegur það sem af er ári. Viðskipti hafa aukist, sölutími styst og íbúðarverð hækkar meira en búast mátti við.

Una telur að vaxtalækkanir sem gripið var til þegar heimsfaraldur Covid-19 hófst hafi aukið eftirspurn þar sem lánskjör á íbúðarlánum eru nú hagstæð og vextir almennt aldrei verið lægri.

Margar íbúðir í byggingu á lokastigi

Landsbankinn spáir 4,5% hækkun íbúðarverðs í ár og svo að jafnaði 4% á ári á næstu árum. 

Una segir hækkunina ekki mikla í sögulegu samhengi en mikið meiri en gert var ráð fyrir við upphaf Covid og mikla miðað við að hagkerfið okkar gengur í gegnum samdráttarskeið.

„Ný talning Samtaka iðnaðarins bendir til þess að nú séu um 4.000 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og þar af eru rúmlega 1.000 á fyrri byggingarstigum,“ segir á vef Landsbankans. Þannig eru flestar íbúðir sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu komnar á síðari byggingarstig.

Talsvert af nýjum íbúðum koma inn á markað í ár en þeim fer svo smám saman fækkandi samkvæmt spá Landsbankans.

Þá er gert ráð fyrir samdrætti í íbúðarfjárfestingu í heild í ár en aukast svo lítillega á næstu árum m.a. vegna aðgerðir stjórnvalda til að styðja við fyrstu kaupendur munu hvetja til uppbyggingar á nýjum íbúðum fyrir þann hóp.

Miðað við forsendur Þjóðhags mun töluverð fjárfesting verða í íbúðarhúsnæði hérlendis á næstu árum eða sambærilega mikið og á uppgangsárunum 2005-2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert