Málar með orðum frekar en penslum

Skáld. Valgerður Kr. Brynjólfsdóttir sækir innblástur í náttúruna.
Skáld. Valgerður Kr. Brynjólfsdóttir sækir innblástur í náttúruna. Ljósmynd/Anders Hansen

Bókaútgáfan Sæmundur hefur gefið út bókina Öldufax, sjónarrönd af landi, eftir Valgerði Kr. Brynjólfsdóttur íslenskufræðing. „Eftir að ég hætti að hafa tíma til að sinna fræðunum fékk ég útrás fyrir þörfina til að skrifa með þessum hætti,“ segir Valgerður um þessa fyrstu ljóðabók sína, en hún starfaði áður meðal annars á Árnastofnun og skrifaði þá fræðigreinar um bókmenntir auk þess sem ljóð eftir hana hafa birst í tímaritum.

Hjónin Valgerður og Anders Hansen hafa verið með hótelrekstur, veitingahús og hestaleigu á Leirubakka við Heklurætur síðan 2005. Það hefur verið meira en fullt starf og skriftirnar því setið á hakanum, en Valgerður segist hafa reynt að nýta vel þann litla frítíma, sem hafi gefist á veturna frá um 2011, til að sinna ljóðagerð. „Þegar maður vinnur alla daga frá morgni til kvölds er lítill tími til sköpunar samhliða hefðbundnum störfum,“ útskýrir hún.

Öldufax.
Öldufax.

Valgerður leggur áherslu á að sveitafólk sé vant að nota hverja mínútu, því alltaf sé verk að vinna. „Ljóðin hafa dottið ofan í skúffuna öðru hverju þessi ár og þegar kórónuveiran skall á gafst frí frá önnunum í hótelrekstrinum og þá fór ég að tína upp úr skúffunni,“ segir Valgerður um bókina.

Hún segist reyndar oft hafa hugsað sér að gefa út ljóðabók en ekki hafi gefist tími til þess fyrr en nú. „Stundum hef ég sagt að gaman væri að geta málað vegna þess að einhverjar myndir voru í höfðinu á mér og skemmtilegt væri að koma þeim á blað en svo áttaði ég mig á því að ég gæti frekar málað með orðum en pensli.“

Sjóslys og heimsviðburðir

Valgerður ólst upp á Bíldudal við sunnanverðan Arnarfjörð og þá bjuggu um 400 manns í þorpinu. „Á þeim tíma var minna hugsað um listnám en það að lifa af og bókin ber þess merki að ég ólst upp í skugga Þormóðsslyssins 1943,“ rifjar hún upp. Þar vísar hún til þess þegar vélskipið Þormóður frá Bíldudal sigldi frá Patreksfirði 17. febrúar með sjö manna áhöfn og 24 farþega til Reykjavíkur en steytti á skeri út af Garðsskaga daginn eftir með þeim afleiðingum að skipið fórst og enginn um borð lifði af. „Þegar ég náði sama aldri og foreldrar mínir voru á þegar þessi alvarlegi atburður varð furðaði ég mig á því hvernig fólk lifði af þessa ofboðslegu sorg og þetta hræðilega áfall sem gekk yfir þetta litla þorp. Ekkert heimili á Bíldudal var ósnortið af þessum atburði.“

Lífsins gangur veitir Valgerði innblástur og hún segist gjarnan setjast niður og hugsa um það sem sé að gerast í veröldinni. „Þegar eitthvað stingur mig í hjarta er gott að geta komið því niður á blað.“ Hún gerir ekki upp á milli ljóðanna, því þau segi öll ákveðna sögu, en segir að fyrsta ljóðið, „Snúið“, sé kannski lýsandi fyrir bókina. Þau búi á afskekktum stað og megnið af vetrinum í mikilli kyrrð og þögn. „Ég skrifa mikið um náttúruna og kemst vel í snertingu við hana hérna á Leirubakka.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert