Tvær lægðir stefna til Íslands

Það er fínt að skella sér á Úlfarsfellið í dag …
Það er fínt að skella sér á Úlfarsfellið í dag þar sem spáin er fín. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Hægir vindar og víða léttskýjað í dag en gengur í suðvestankalda með skúrum eða éljum norðvestantil eftir hádegi. 

„Á morgun myndast grunn lægð á Grænlandshafi og gengur í suðaustankalda með rigningu eða slyddu á vestanverðu landinu. Önnur og dýpri lægð nálgast á fimmtudag og hvessir þá talsvert úr austri og rignir dálítið sunnantil. Hiti yfirleitt 1 til 6 stig að deginum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Það er hálka á Holtavörðuheiði og á Laxárdalsheiði en hálkublettir á Bröttubrekku og Fróðárheiði. Hálka er á Steingrímsfjarðarheiði og á Þröskuldum en hálkublettir nokkuð víða annars staðar bæði á láglendi og fjallvegum á Vestfjörðum. Hálka eða hálkublettir eru víða á Norðausturlandi og þá helst á fjallvegum. Hálka eða hálkublettir eru víða á Austurlandi og þá helst á fjallvegum að því er segir á vef Vegagerðarinnar.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Hæg norðlæg eða breytileg átt, víða léttskýjað og vægt frost. Suðvestan 3-10 m/s og skúrir eða él NV-til eftir hádegi og úti við NA-ströndina. Hiti 1 til 5 stig að deginum. Suðaustan 5-13 á morgun og dálítil rigning eða slydda öðru hvoru, en hægara og þurrt eystra með hita kringum frostmark.

Á miðvikudag:
Suðlæg átt, 5-10 m/s og dálítil rigning eða slydda á vesturhelmingi landsins og hiti 1 til 6 stig. Hægari og bjartviðri eystra með hita kringum frostmark.

Á fimmtudag:
Gengur í suðaustan og austan 13-20 m/s með rigningu víða á landinu, hvassast syðst en hægara og þurrt norðanlands og hlýnar í veðri.

Á föstudag:
Allhvöss eða hvöss austan- og norðaustanátt með talsverðri rigningu S- og A-lands en annars úrkomuminna. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst.

Á laugardag (fyrsti vetrardagur):
Útlit fyrir norðaustan hvassviðri, jafnvel storm með talsverðri rigningu víða á landinu, en úrkomuminna á V-landi. Fremur hlýtt í veðri.

Á sunnudag:
Stíf norðaustanátt NV-til en annars mun hægari vindar og væta í flestum landshlutum. Áfram hlýtt í veðri.

Á mánudag:
Líklega norðanátt með éljum á N-verðu landinu, en bjartviðri syðra og kólnar heldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert