Dæmdur fyrir stórfellda líkamsárás

Landsréttur breytti dómi yfir Hafsteini úr sex ára fangelsi í …
Landsréttur breytti dómi yfir Hafsteini úr sex ára fangelsi í fjögurra ára fangelsi. Þá var honum gert að greiða allan áfrýjunarkostnað. mbl.is/Hallur Már

Karlmaður á þrítugsaldri var á föstudag dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Landsrétti fyrir stórfellda líkamsárás. Hann hafði áður áfrýjað dómi Héraðsdóms Suðurlands sem dæmdi hann í sex ára fangelsi. Einnig þarf maðurinn að greiða brotaþola tvær milljónir króna.

Maðurinn, Hafsteinn Oddsson, hafði áður fengið dóm vegna tilrauna til ráns og fyrir brot gegn umferðarlögum sem hann hlaut sex mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir. Að því gættu dæmdi Landsréttur hina fyrri refsingu með í þennan dóm.

Skildi hana eftir bjargarlausa

Í útdrætti dómsorðs kemur fram að Hafsteinn hafi veist að konu með í ítrekuðum spörkum í andlit og búk. Þá klæddi Hafsteinn konuna úr öllum fötunum áður en hann yfirgaf hana þar sem hún lá í götunni, mikið slösuð, nakin og án bjargar. 

Hafsteinn krafðist þess að dómur Landsréttar yrði gerður ómerkur og að málinu yrði vísað aftur til héraðs til löglegrar meðferðar. Hann segir það hafa brotið gegn jafnræði málsaðila og komið niður á vörnum sínum að dómari hafi hlutast til um að leggja fram ný gögn í málinu við aðalmeðferð þess.

Matsmaður breytti ályktun sinni 

Árið 2018 höfðu þrjár ljósmyndir verið lagðar fram sem gögn í málinu og sýndu þær áverka á enni brotaþola. Matsmaður sem kvaddur var við dóminn sagði að líklega væru áverkarnir til komnir vegna hnefahögga en að ekki væri útilokað að þeir hefðu verið til komnir vegna sparka. 

Í matsgerðinni segir að ljósmyndir þessar hafi ekki verið í miklum gæðum, sem takmarki réttarmeinafræðilegt mat. Matsmaður fékk þá í kjölfarið aðgang að 19 myndum til viðbótar sem voru teknar síðar og sýndu sömu áverka. Þá breytti matsmaðurinn áliti sínu á líkum á því að spark eða tramp hafi verið orsök áverkana úr „síður mögulegt“ í „jafnmögulegt“.

Verjandi hins ákærða bókaði í kjölfarið mótmæli vegna gagnaframlagningarinnar og sagði ekki hægt að dæma í málinu, byggt á hinum nýju gögnum og breyttum ályktunum matsmanns.

mbl.is