Mögulega tilkynnt sem alvarlegt atvik

Landakotsspítali.
Landakotsspítali. mbl.is/Golli

Það á eftir að koma í ljós hvort kórónuveirusmitið sem kom upp á Landakoti verður tilkynnt til embættis landlæknis sem alvarlegt atvik. Ekki er tímabært að hugsa um slíkt sem stendur.

Þetta segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis.

Sem stendur er um innanhússmál að ræða hjá Landspítalanum og forgangsatriði hjá starfsfólkinu þar að ná utan um stöðuna á spítalanum áður en farið verður í enn frekari greiningu á því sem gerðist. Spítalinn er sjálfur í smitrakningu með aðstoð frá smitrakningarteymi almannavarna, bætir Kjartan við og segir embætti landlæknis ekki koma að því með beinum hætti að greina hvað gerðist, eins og staðan er núna.

Áminning myndi koma til greina

Ef málið verður tilkynnt sem alvarlegt atvik verður það tekið fyrir eins og önnur slík. Til dæmis verður kallað eftir margs konar gögnum og talað við starfsfólk.  

Spurður hverjar séu afleiðingar af starfsfólk gerist uppvíst að alvarlegu atviki segir hann að stundum veiti embætti landlæknis því áminningu. Enginn grunur sé þó um að meiriháttar misbrestur hafi orðið varðandi smitið á Landakoti. „Við þurfum auðvitað að draga einhvern lærdóm af þessu. Við rannsökum öll mál í því skyni að við getum forðast svona í framtíðinni,“ segir Kjartan Hreinn.

Lögreglan á Vestfjörðum rannsakar málið sem kom upp á Vestfjörðum varðandi smitið um borð í togaranum Júlíusi Geirmundssyni sem sakamál. Á upplýsingafundi í morgun sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að kannaður hefði verið orðrómur um að gleðskapur hefði verið hjá starfsfólki Landakots sem mögulega hefði valdið smitinu sem þar kom upp. Orðrómurinn reyndist ekki á rökum reistur.

Spurður út í málin tvö telur Kjartan Hreinn þau ekki vera sambærileg en bendir á að lögreglan þurfi að svara því betur. Ekki náðist í Víði við vinnslu fréttarinnar.

Í svari við fyrirspurn mbl.is segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, að þau geri ráð fyrir því að skoðun á atburðunum á Landakoti muni taka nokkurn tíma. Fyrst þurfi þó að komast fyrir smitið áður en hægt verði að fara af stað á fullu með rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert