Stóð og blánaði í framan

Leikskólinn er í Hörgársveit.
Leikskólinn er í Hörgársveit. Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur lokið rannsókn sinni í kjölfar þess að barn veiktist og missti meðvitund á leikskólanum Álfasteini í Hörgársveit. Ekkert bendir til þess að barnið hafi lent í slysi eða innbyrt nokkuð sem kann að skýra meðvitundarleysið.

Engin vitni urðu að neinu sem kann að skýra málið en að sögn Vals Magnússonar, lögreglufulltrúa rannsóknardeildar lögreglunnar á Norðurlandi eystra, tók einn leikskólakennarinn eftir því að ekki var allt með felldu þar sem barnið stóð upp við tré og byrjaði að blána í framan. Tók kennarinn barnið því upp og hljóp með það inn á leikskólann þar sem litaraft barnsins breyttist til betri vegar. Hins vegar var það áfram meðvitundarlaust. 

Því næst var barnið fært á sjúkrahús áður en flogið var með það til Reykjavíkur. Því var haldið sofandi í fyrstu en það er nú komið til meðvitundar. Ekkert sjáanlegt virðist ama að barninu að sögn Vals. 

„Leikskólakennarinn sér barnið í þessu ástandi en það sér enginn þegar það fer í þetta tiltekna ástand. Leikskólakennarinn sá barnið standandi og hallandi sér upp að tré þegar hann tók það upp,“ segir Valur „Það var orðið blátt í framan. Leikskólakennarinn fór með barnið inn þar sem aðrir taka við því. Þá breytist litaraftið til hins betra,“ segir Valur.

Að sögn hans standa læknar á gati með það hvað kann að hafa orsakað þetta. Hann segir að m.a. hafi vettvangurinn verið rannsakaður með það til hliðsjónar hvort einhver eitrun hafi leitt til þessa ástands. Ekkert í umhverfinu hafi hins vegar bent til þess.

mbl.is