„Gefumst ekki upp svo glettilega“

Þórunn á fundinum í morgun. Drykkir Mjólkursamsölunnar sem hún minntist …
Þórunn á fundinum í morgun. Drykkir Mjólkursamsölunnar sem hún minntist á sjást einnig á myndinni. Ljósmynd/Lögreglan

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, hvatti eldri borgara til dáða í kórónuveirufaraldrinum á upplýsingafundi almannavarna og sagði þessa bylgju faraldursins ætla að verða þeim mun erfiðari en þær fyrri.

Hún nefndi að „áfallið á Landakoti“ hefði náð verulega til eldra fólks. Átti hún þar við hópsýkinguna en bætti við: „Við þekkjum lífið, við erum lífsreyndar manneskjur. Við gefumst ekki upp svo glettilega en það tekur í.“

Hreyfing mikilvæg

Þórunn hvatti eldri borgara til að fara snemma í matvörubúðir eða panta matinn á netinu. Einnig skoraði hún á fólk að geyma þau erindi sem ekki skipta máli í bili.

Hún hvatti fólk til að fara út og nefndi að hreyfing skipti höfuðmáli. Einnig væri hægt að hreyfa sig innanhúss. Sömuleiðis er stutt í að fleiri íþróttahús opni fyrir aldraða, þar á meðal hjá ÍR, þar sem þeir geta gengið innanhúss.

Þórunn sagði þennan rúmlega 45 þúsund manna hóp yfir sextugu á Íslandi vera sterkan og duglegan sem muni tímana tvenna, þar á meðal skömmtunarseðla.

Vantar sjálfboðaliða

Hún hvatti fólk til taka upp símann og hringja í ættingja eða vini. Einnig sagði hún skort vera á sjálfboðaliðum. „Símavinir eru núna að gera ótrúlega fína hluti,“ sagði hún en bætti við að Íslendingar séu eftirbátar Dana í þessum efnum. Þar séu um 43% eldri borgara sjálfboðaliðar. Hægt væri að gera kraftaverk með því að rjúfa einmanaleika með því að hjálpa öðrum. „Það er gefandi að vera sjálfboðaliði.“

Þórunn bað eldri borgara einnig um að gæta að næringunni og minntist á næringardrykk frá Mjólkursamsölunni þess efnis. „Við ætlum að vera sterk og leysa þetta saman.“

mbl.is