„Fer ekki bara með einhverjar hugmyndir fyrir stjórn“

Kristín Soffía Jónsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna og borgarfulltrúi Samfylkingar.
Kristín Soffía Jónsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna og borgarfulltrúi Samfylkingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristín Soffía Jónsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna og borgarfulltrúi Samfylkingar, telur eðlilegt að umsögn sem send var skipulagsfulltrúa vegna áforma um uppbyggingu Vincent Tan við Miðbakka hafi ekki farið fyrir stjórn Faxaflóahafna. Þá segir hún einnig að henni hafi ekki þótt ástæða til að kalla stjórn saman þegar Tryggvi Þór Herbertsson óskaði eftir fundi með henni. 

Tryggvi Þór Herbertsson, sem fer fyrir verkefni Vincent Tan um 40 milljarða króna uppbygginu á Miðbakkanum segir í skriflegu erindi til mbl.is að hann hafi ítrekað reynt að fá fund með stjórn Faxaflóahafna til að ræða áform um hótelbyggingu á svæðinu. Það hafi ekki gengið eftir.  

Fimmti aðilinn sem er með hugmyndir um svæðið

„Síðan ég tók við er þetta fimmti aðilinn sem er með hugmyndir um svæðið. Ég fer ekki bara með einhverjar hugmyndir fyrir stjórn. Sagði þeim að þau væru svo langt út fyrir skipulagslýsingu sem var nýlega samþykkt af þessari sömu stjórn," segir Kristín. Hún segir ennfremur að hún skilji ekki hvernig verkefnið sé komið á fjármögnunarstig þegar áformin séu í engum takti við skipulagslýsingar.  

Kristín segir að fimm aðilar hafi haft hugmyndir um Miðbakkann …
Kristín segir að fimm aðilar hafi haft hugmyndir um Miðbakkann síðan hún tók við sem stjórnarformaður Faxaflóahafna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Segir Kristín að umsögnin hafi verið unnið af starfsmönnum Faxaflóahafna og hún hafi verið inni í málinu þó aðrir stjórnarmenn hafi ekki verið það. Hún segir að megin ástæða þess að henni hafi ekki þótt ástæða til að fara með málið fyrir stjórnina vera þá að ekki hafi verið samþykktir eða skipulagsáætlanir hjá Faxaflóahöfnum sem samrýmdust hugmyndum Vincent Tan.  

Umsögnin eingöngu borin undir stjórnarformann

Marta Guðjónsdóttir, stjórnarmaður Faxaflóahafna og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að henni þætti óeðlilegt að umsögn sem send var skipulagsfulltrúa hafi ekki farið fyrir stjórn Faxaflóahafna. 

„Það er mjög óvanalegt að sótt sem um skipulag til borgarinnar án þess að samráð sé til okkur sem lóðarhafa, né að til hafi komið úthlutun. Ég man ekki eftir öðru dæmi þar sem við þurfum að fara með mál þar sem sótt er um breytingu á skipulagi á okkar lóð. Það er ekki til viðtekin venja um það hvernig við tökum á slíkum gjörningi,“ segir Kristín Soffía. 

Umsögnin sem send var skipulagsfulltrúa var unnin og undirrituð af þeim Magnúsi Þór Ásmundssyni, hafnarstjóra og Hildi Gunnlaugsdóttur skipulagsfulltrúa Faxaflóahafna. Kristín segir að hún hafi verið eini stjórnarmaðurinn sem fór yfir umsögnina. „Ég held að það sé mjög eðlilegt að stjórnarformenn séu upplýstir um fleiri mál en aðrir stjórnarmenn,“ segir Kristín Soffía. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert