Eliza kynnti viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar

Eliza Reid forsetafrú. Mynd úr safni.
Eliza Reid forsetafrú. Mynd úr safni.

Eliza Reid forsetafrú kynnti í dag viðurkenningarhafa Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu, en það eru þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar. Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar árið 2019 hlutu 18 þátttakendur viðurkenningu, en í ár voru viðurkenningarhafar 44 talsins.

Meðal þeirra sem tóku þátt í stafrænni ráðstefnu FKA í dag voru Katrín Jakobsdóttir – forsætisráðherra, Dr. Þóranna Jónsdóttir, stjórnendaráðgjafi,Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, mannauðsstjóri Deloitt, Þorsteinn V. Einarsson, Karlmennskan, Hulda Ragnheiður Árnadóttir, formaður FKA og Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá.

Alls hlutu 30 fyrirtæki, fimm sveitarfélög og níu opinberir aðilar Jafnvægisvogina úr hópi 116 aðila sem hafa undirritað viljayfirlýsingu og tóku þátt í könnun um aðgerðir sem gripið var til, að því er fram kemur í tilkynningu.

Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar haustið 2019 hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim fyrirtækjum sem hafa náð markmiðunum um rúmlega helming á milli ára.

Auk þess vekja þátttakendur í Jafnvægisvoginni athygli á jafnréttismálum innan sinna fyrirtækja með ýmsum öðrum hætti.

Á árinu undirrituðu alls átta sveitarfélög og tólf opinberir aðilar viljayfirlýsingu um að vinna að markmiðum Jafnvægisvogarinnar og bættust þar með í hóp þeirra sem undirrituðu fyrir ári síðan. Þá hafa 38 fyrirtæki einnig undirritað viljayfirlýsingu um að beita sér fyrir auknu kynjajafnvægi innan sinna vébanda og vinna að markmiðum Jafnvægisvogar FKA næstu fimm árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert