Væri „heimskulegt“ að létta strax á aðgerðum

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur sérstaklega mikilvægt að framhaldsskólanemar …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur sérstaklega mikilvægt að framhaldsskólanemar geti mætt í skólann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur skynsamlegast að sömu aðgerðum og gildi innanlands nú sé haldið til streitu þar til daglegur smitfjöldi sé um eitt smit í tvær vikur, nema hvað varðar skólana. Hann styður tillögu sóttvarnalæknis um að afnema val um 14 daga sóttkví við komuna til landsins þar sem fólk sem hafi valið sóttkvína hafi komið af stað hópsmitum í samfélaginu.   

Kári segir að Íslendingar ættu að setja það í forgang nú að leyfa unga fólkinu að komast í grunn- og framhaldsskóla og það sé mögulegt með því að halda ströngum takmörkunum á öðrum sviðum samfélagsins. Núverandi aðgerðir, sem m.a. kveða á um 10 manna samkomutakmörk, gilda til 17. nóvember nk. Tillögur frá sóttvarnalækni um áframhaldandi aðgerðir eru nú á borði heilbrigðisráðherra. Þær verða ræddar á ríkisstjórnarfundi í dag.

„Þetta er framtíð okkar samfélags“ 

„Það væri ansi heimskulegt á þessu augnabliki að létta á þessum aðgerðum. Eitt af því sem við erum búin að læra á síðustu mánuðum er hversu hratt þetta getur blossað upp. Ég held því fram að við eigum að setja okkur markmið og það markmið sem ég vil setja efst á forgangslista er að sjá til þess að börn geti farið í skóla og verið í skóla á eðlilegan máta,“ segir Kári og heldur áfram: 

„Ég held að það sé sérstaklega mikilvægt fyrir unglingana í menntaskólanum vegna þess að það er þar sem við lærum að vera fólk innan um annað fólk á eðlilegan máta. Ég held að það sé alveg gífurlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að koma börnunum í skóla. Þetta er framtíð okkar samfélags.“ 

Kári segir að til þess að geta haldið skólunum opnum sé mikilvægt að halda „ansi stífum takmörkunum“ áfram annars staðar. Fyrsta skrefið ætti, að hans mati, að vera að koma ungviði landsins í skólana. „Síðan getum við séð hvernig þetta þróast,“ segir Kári.  

Vekur grunsemdir þegar fólk velur sóttkví fram yfir sýnatöku

Hvenær getum við þá farið að slaka á?  

„Ég myndi vilja sjá smit innan við eitt smit á dag í tvær vikur áður en ég færi að velta fyrir mér því að slaka á einhverju öðru. Stóra markmiðið er að sjá til þess að þetta unga fólk sem erfir landið komi út úr þessu ósnert.“  

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt til að tvöföld skimun á landamærunum verði skylda, þ.e. að ekki verði boðið upp á val um 14 daga sóttkví við komuna til landsins. Kári segist taka undir það.

„Það er margt sem við höfum lært sem bendir til þess að þeir sem velji að fara í tveggja vikna sóttkví meini það ekki vegna þess að ekki er þessi skimun sársaukafull, þannig að af hverju ættirðu að vilja vera frekar í tvær vikur í sóttkví heldur en fimm daga? Það vekur grunsemdir þegar fólk velur þá leið og reynslan hefur sýnt okkur að allt of oft þá meinar fólk þetta ekki og það hefur komið af stað hópsmitum í okkar samfélagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert