Fastagestir verði með í ráðum við endurbæturnar

Endurgera þarf sundlaugina en útfærsla liggur ekki fyrir. Þá verður …
Endurgera þarf sundlaugina en útfærsla liggur ekki fyrir. Þá verður sömuleiðis hugað að stúkunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta verður svakaleg framkvæmd en það er allt komið á tíma í lauginni,“ segir Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri hjá ÍTR.

Miklar endurbætur eru fyrirhugaðar á Laugardalslaug á næstu árum. Að sögn Steinþórs er búið að eyrnamerkja 2,5- 3 milljarða króna á næstu þremur til fjórum árum til verksins. Strax á næsta ári verður 50 milljónum varið í að hefja undirbúning fyrir þessar framkvæmdir. Og raunar hefur forskot þegar verið tekið á sæluna því unnið hefur verið að þakviðgerðum að undanförnu meðan laugin hefur verið lokuð.

Steinþór segir að ekki sé búið að ákveða nákvæma útfærslu á endurbótunum. Ljóst sé þó að bygga þarf útilaugina sjálfa upp að nýju. „Laugarkerið þarfnast endurnýjunar og það þarf að byggja það upp í nýrri mynd. Þetta verður að líkindum 50 metra laug áfram en spurning hvort hún verður jafn breið. Ég held svo að allir vilji halda hringlaga pottunum, hvort sem þeir verða steyptir upp að nýju eða hvað,“ segir Steinþór.

Ljóst er að gömlu hringlaga pottarnir þarfnast viðhalds á næstunni.
Ljóst er að gömlu hringlaga pottarnir þarfnast viðhalds á næstunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segist aðspurður gera sér grein fyrir að mörgum sé annt um laugina í núverandi mynd og stíga þurfi varlega til jarðar með breytingar. Um 750 þúsund gestir koma í Laugardalslaug á venjulegu ári og margir eru fastagestir.

„Ég hugsa að leitað verði til rýnihópa um útfærsluna, meðal annars fastagesta og sundfélaga,“ segir Steinþór og bætir við að reynt verði að haga útfærslunni þannig að hægt verði að halda úti sem mestri starfsemi meðan á framkvæmdum stendur.

Stúkan er illa farin.
Stúkan er illa farin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá á eftir að ákveða hvernig stúkan við laugina verði nýtt í framtíðinni. Nú má finna á vefnum Betri Reykjavík tillögu um endurbætur á henni og af viðbrögðum borgarbúa að dæma virðast afar skiptar skoðanir vera um ágæti hennar og mikilvægi. Sumir telja stúkuna, sem Einar Sveinsson teiknaði, eitt af kennileitum svæðisins en aðrir telja einfaldast að rífa hana, enda sé stúkan aldrei notuð sem slík. Málið er þó ekki svo einfalt því eins og Steinþór bendir á er allur stjórnbúnaður laugarinnar undir stúkunni og ráðast þarf í endurnýjun á honum. Hann segir að stúkan verði hluti af þessum framkvæmdum en eftir eigi að koma í ljós hvernig hún verði nýtt í framtíðinni. „Það má heldur ekki gleyma því að hún er ákveðin táknmynd fyrir laugina og reyndar dýrmætur skjólveggur líka.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert