Eldsvoði í Hjallahverfi

Mikill viðbúnaður var hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í nótt vegna elds í raðhúsi í Hjallahverfinu í Kópavogi. 

Að sögn varðstjóra í slökkviliðinu höfðu fjölmargir samband við Neyðarlínuna þar sem eldurinn sást víða að. Þrír dælubílar, körfubíll og tveir sjúkrabílar af þremur slökkviliðsstöðvum fóru á vettvang en þegar slökkviliðið kom á vettvang voru hjón sem búa í raðhúsinu komin út og hafði þeim ekki orðið meint af.

Eldurinn kom upp á yfirbyggðum svölum og hafði hann náð að teygja sig í þak hússins og rúður farnar að springa þegar slökkvistarf hófst. Eldurinn hafði lítið náð að komast inn í húsið sjálft. Mikill eldur var á svölunum og er tjónið töluvert að sögn varðstjóra. 

Eldsupptök eru ókunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert