Þrjú útköll á einum degi

Fyllt var á eldsneyti þyrlunnar milli annars og þriðja útkalls …
Fyllt var á eldsneyti þyrlunnar milli annars og þriðja útkalls dagsins með svokallaðri „hot refuel“-aðferð, en þá eru hreyflar þyrlunnar enn í gangi. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á sjötta tímanum við Landspítalann í Reykjavík með mann úr Árnessýslu. Þetta var annað útkall þyrlunnar í dag, en fyrr í dag var maður á Vesturlandi fluttur til Reykjavíkur vegna bráðra veikinda. Þyrlan, TF-GRO, er nú á leið í sitt þriðja útkall á Hornstrandir. Öll útköllin eru vegna bráðra veikinda, en engin tengjast þó kórónuveirunni.

Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir í samtali við mbl.is að útköllin hafi verið óvenjumörg up helgina, þrjú í dag og eitt í gær. Til samanburðar fóru þyrlur Gæslunnar aðeins í eitt útkall síðustu tvær vikur.

Álagið eykst þegar síst skyldi, því vegna verkfalls flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni er aðeins ein þyrla tiltæk sem stendur. Fyrir liggur að þyrlan sem eftir er, TF-GRO, verður ónothæf upp úr miðri viku verði verkfalli ekki lokið, en þá þarf hún á reglubundinni skoðun að halda.

Sá möguleiki er einnig fyrir hendi, segir Ásgeir, að þyrlan verði ónothæf fyrr. „Við höfum bent á að sá möguleiki er fyrir hendi að hún komi biluð úr útkalli.“

mbl.is