Komi ekki heim síðar en 18. desember

Ljósmynd/Almannavarnir

Vilji Íslendingar erlendis ná að verja jólahátíðinni með sínum nánustu er síðasti dagurinn til heimfarar 18. desember. Þetta sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi almannavarna.

Sagði hann að þar sem tilkynnt hefði verið um óbreytt verklag á landamærum, þ.e. tvöfalda sýnatöku og 5 til 6 daga sóttkví þess á milli, þyrfti fólk að fljúga heim í síðasta lagi 18. desember til þess að eiga möguleika á að vera laust úr sóttkví á aðfangadag.

Stjórnvöld hafa þegar tilkynnt að sýnataka á landamærum verði gjaldfrjáls frá 1. desember, en hingað til hefur hún kostað 11 þúsund krónur.

Þá sagði Víðir að stjórnvöld væru vel búin undir að taka á móti nokkrum fjölda fólks í sóttvarnahúsin þrjú og að vel væri fylgst með farþegaspám.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is