Uppgreiðslugjald fari beint til Hæstaréttar

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir svari við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins, að ríkið ætli að láta á það reyna hvort dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um að ólöglegt uppgreiðslugjald lána hjá ÍLS geti fengið flýtimeðferð og farið beint fyrir Hæstarétt.

„Það sem við ætlum að gera í þessu máli er að við ætlum að reyna að fara eins skjóta leið og hægt er í gegnum dómskerfið og við munum láta reyna á sérstaka heimild í lögunum til þess að óska eftir beinni meðferð fyrir Hæstarétti, fram hjá Landsrétti, til þess að málsmeðferðartíminn verði sem allra stystur,“ segir Bjarni í ræðu sinni.

Yrði enn meiri skellur fyrir ríkissjóð

Fyrirspurn Ólafs snéri m.a. að því hvort að þeir lántakendur sem tóku lán á hærri vöxtum gegnt því að hafa ekki uppgreiðslugjald á sínum lánum hjá Íbúðalánasjóði myndu fá endurgreiðslu byggða á þeim vaxtamun sem þar skapaðist, þ.e. ef Landsréttur myndi staðfesta dóminn.

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Hari

Í síðara andsvari sínu sagði Bjarni að hann teldi það langt gengið ef að þeir sem völdu þá leið myndu fá að njóta sömu vaxtakjara og þeir sem völdu lán með uppgreiðslugjaldi.

„Það eina sem Íbúðalánasjóður var að reyna að gera var að fleyta áfram sínum kjörum til sinna viðskiptamanna og var með þá bakfjármögnun sem ýmist var uppgreiðanleg eða ekki fyrir sjóðinn. Það væri enn meiri skellur fyrir ríkissjóð að þurfa að deila lánakjörum sjóðsins á óuppgreiðanlegum lánum með þeim sem vildu hafa uppgreiðsluheimild hvenær sem er," segir Bjarni.

Ríflega 8 milljarðar kr. hagsmunir 

Fram kom í tilkynningu þar sem fram kom að ríkið hyggist áfrýja dómnum að inn­heimtir hafa verið 5,2 ma.kr. í sam­bæri­legum upp­greiðslu­þóknunum og að ó­gjald­fallin upp­greiðslu­gjöld virkra lána eru um 3 ma.kr., en gjöldunum var ætlað að mæta kostnaði sjóðsins af upp­greiðslu lána. Heildar hagsmunir vegna málsins eru því rúmir 8 milljarðar króna. Þá segir málið nái til 8.500 lántakenda með uppgreiðslugjald. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert