Met slegin á fasteignamarkaði

Mikið líf er á fasteignamarkaði um þessar mundir þó að hápunktinum hafi líklegast verið náð í september. Óhætt er að segja að september hafi slegið öll met í umfangi þar sem aldrei áður hefur sést annar eins fjöldi útgefinna kaupsamninga og sló veltan sömuleiðis öll met.

Október og nóvember virðast hafa verið aðeins umsvifaminni á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt upplýsingum frá hagdeild Húsnæðis og mannvirkjastofnunar, þó að fjöldinn sé enn í methæðum.

Í nágrenni við höfuðborgarsvæði var nóvember hins vegar metmánuður í fjölda eigna sem teknar voru af söluskrá á meðan fjöldinn dróst verulega saman annars staðar á landsbyggðinni.

„Mikil eftirspurn eftir húsnæði undanfarna mánuði er farin að hafa töluverð áhrif á fjölda eigna sem eru til sölu á hverjum tíma. Seinustu ár hefur meðalfjöldi eigna til sölu á höfuðborgarsvæðinu verið á bilinu 1.600-2.200 eignir. Við lok fyrra samkomubanns í vor var þessi fjöldi í hámarki eða um 2.200 eignir og hefur síðan þá lækkað niður fyrir 1.200 eignir. Minna framboð á eignum hefur orðið til þess að verð hefur hækkað þó nokkuð undanfarna mánuði ásamt því að meðalsölutími eigna hefur dregist saman. 

70% búast við hækkun fasteignaverðs

Samkvæmt skoðanakönnun HMS og Zenter frá því í nóvember eru væntingar almennings á þá leið að húsnæðisverð muni halda áfram að hækka á næstu 12 mánuðum, en rúmlega 70% svöruðu með þeim hætti.

Mun meiri væntingar voru til verðhækkana á höfuðborgarsvæðinu en þar töldu 76% svarenda að verðið muni hækka á meðan ekki nema 61% á landsbyggðinni svöruðu á sama hátt. Þessar verðhækkanir eru í takti við að aukinn fjöldi íbúða selst nú yfir ásettu verði, það á sérstaklega við höfuðborgarsvæðið. Á höfuðborgarsvæðinu hefur hlutfall eigna sem selst yfir ásettu verði hækkað úr 11% í júní og upp í 21% í október, miðað við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal,“ segir í fréttatilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ríkisins.

Tekur styttri tíma að selja

Meðalsölutíma eigna hefur dregist hratt saman síðan í vor. Það er í samræmi við að framboðið sé að dragast saman, verðið sé að hækka og fleiri eignir að fara á yfirverði. Samkeppnin um eignir virðist vera mikil og því styttist sölutíminn. Sölutími nýrra eigna á höfuðborgarsvæðinu fór hæst upp í 79 daga að meðaltali í samkomubanninu í vor, en hefur nú styst niður í 61 dag.

Fyrir aðrar eignir þá hefur sölutíminn styst úr 49 dögum niður í 43 og hefur ekki mælst jafn stuttur eins langt og gögn ná til, eða til ársins 2013. Annars staðar á landinu hefur sölutími nýrra eigna farið úr 122 dögum, þegar hann var sem lengstur í vor, niður í 86 daga nú. Sölutími annarra eigna hefur styst úr 87 dögum niður í 76.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka