Bóluefnið er klárt á Árskógssandi

Sigurður Bragi með Bóluefnið.
Sigurður Bragi með Bóluefnið.

„Það er ánægjulegt að vera fyrstir til að koma bóluefni á markað. Við viljum endilega koma þessu til sem flestra landsmanna,“ segir Sigurður Bragi Ólafsson, bruggmeistari hjá Kalda á Árskógssandi.

Kveðja „skítaár“

Sigurður tók höndum saman við kollega sína í Borg brugghúsi og bruggaði áramótabjór sem kemur í vínbúðir í dag eða á milli jóla og nýárs. Bjórinn hefur fengið nafnið Bóluefnið og er eikarþroskaður belgískur tripel.

„Þetta er búið að vera soddan skítaár að það er eina vitið að loka því með veglegum bjór. Það er viðeigandi að skála fyrir nýju ári í bjór úr stórri flösku með fallegum korktappa,“ segir Sigurður.

Spennandi samstarf

Þetta er fyrsta samstarfsverkefni Kalda með öðru íslensku brugghúsi en Sigurður hefur aftur á móti í tvígang unnið með bandarískum kollegum sínum sem sérhæfa sig í súrbjórum. Hann segir að lengi hafi staðið til að vinna með félögum sínum í Borg. Þeir hafi unnið lengi að uppskriftinni og útfærslunni og lagt saman í púkk með hráefni og hugmyndir. Þá hafi hönnuður Kalda hannað útlit flöskunnar glæsilegu. Útkoman er 9% belgískur tripel, „alvöru áramótabomba“ að sögn bruggarans en samt mjúkur og þægilegur bjór.

Bjartsýn á framhaldið

Sigurður segir aðspurður að rekstur Kalda hafi gengið ágætlega í ár þrátt fyrir erfiðleika af völdum veirunnar. Sala á bjórkútum til veitingastaða hafi nánast þurrkast upp en jólavertíðin hafi gengið vel. Hún sé sennilega sú besta í fimm eða sex ár. Þá hefur tilkoma áfyllingarlínu fyrir bjór í dósum glætt söluna frá því í sumar. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í júlí var tilkoma dósalínunnar fjárfesting upp á 60 milljónir króna sem þótti tíðindum sæta í miðjum kórónuveirufaraldri. Sigurður segir að eina leiðin sé að horfa fram á veginn og hann er bjartsýnn á framhaldið. „Við erum bara brött,“ segir bruggmeistarinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »