„Alveg svakaleg mistök hjá Bjarna“

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar. mbl.is/Arnþór

„Mér finnst þetta vera alveg svakaleg mistök hjá Bjarna. Þetta er vont innlegg inn í sóttvarnirnar,“ segir Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, í samtali við mbl.is. Segir hún veru Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í fjölmennri samkomu á Þorláksmessu alvarlega uppákomu.

Samkoman var leyst upp af lögreglu, en ekki hafði verið farið eftir sóttvarnareglum. Aðspurð segir Líneik að málið komi ekki endilega til með að hafa áhrif á stöðu Bjarna. „Ég sé þetta ekki hafa áhrif á stöðu hans en það þarf að sjálfsögðu að ræða málin.“

Axlar ekki ábyrgð með svona hegðun

Að hennar sögn kemur atvikið upp á vondum tíma. Fram undan séu bólusetningar auk þess sem allir verði að leggjast á eitt til að halda faraldrinum í skefjum. „Það er svo mikilvægt að hvert og eitt okkar axli ábyrgð og verndi þannig fólkið í kringum okkur,“ segir Líneik og bætir við að óvíst sé með áhrifin á samstarf ríkisstjórnarflokkanna.

„Ég sé þetta ekki endilega hafa áhrif á samstarfið, en hann er alveg klárlega ekki að axla ábyrgð á sóttvörnum með svona mistökum. Við erum að glíma við farsótt og það er mikilvægt að við vöndum okkur í því verkefni.“

Bjarni Benediktsson og Þóra Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona hans.
Bjarni Benediktsson og Þóra Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona hans. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is