„Ég er ekki að hugsa um að segja af mér“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist ekki vera að íhuga að segja af sér sem ráðherra eftir að hafa verið viðstaddur samkvæmi á Þorláksmessu sem lögregla stöðvaði vegna brota á sóttvarnalögum. Hann segist vilja halda áfram að vinna við þau mikilvægu verkefni sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir.

Hann segist ekki hafa haft ástæðu til að halda að sóttvarnareglur yrðu með nokkru móti brotnar í því sem hann segir að hafi ekki verið samkvæmi eða gleðskapur heldur opin sölusýning. Honum finnst leiðinlegt að yfirsjón hans varpi skugga á það starf sem ríkisstjórnin er að vinna.

„Ég er ekki að hugsa um að segja af mér og vil áfram sinna þeim stóru verkefnum sem mér eru falin og eru gríðarlega mikilvæg,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Hefur rætt við fjölmarga um málið

Bjarni segist hafa rætt við fjölmarga um það sem gerðist á Þorláksmessu, þar á meðal eru ráðherrar í ríkisstjórn, sóttvarnalæknir og yfirlögregluþjónn almannavarna. Það segist hann hafa gert til þess að greina frá sinni hlið málsins.

„Ég átti samtal við Katrínu, Sigurð Inga, Lilju, Svandísi heilbrigðisráðherra. Svo ræddi ég við sóttvarnalækni og Víði Reynisson yfirlögregluþjón. Tilgangurinn með því er fyrst og fremst að greina frá minni hlið í þessu máli. 

Ég lýsti því sem var að ég var viðstaddur sölusýningu en ekki einhvern gleðskap eða samkvæmi.“

Bjarni segist hafa rætt við fjölmarga, þar á meðal Katrínu …
Bjarni segist hafa rætt við fjölmarga, þar á meðal Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Katrín segist ekki kalla eftir afsögn Bjarna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni segist spurður um atburðarás kvöldsins ekki hafa haft tilefni til að ætla að sóttvarnalög yrðu brotin í Ásmundarsal.

„Sýningin í salnum er sölusýning og ég fór á hana í fyrra og keypti jólagjöf og ég fór aftur á opnunina í ár. Þegar ég kem á staðinn eru allar sóttvarnareglur mjög vel virtar, ég veitti því ekki athygli að þar væru of margir. 

Fljótlega er ég kominn í tveggja manna tal og það er þá sem Þóra, eiginkona mín, bendir mér á að nú sé kominn tími til að fara  það var enda aldrei ætlunin að stoppa lengi. Á þeim tímapunkti eru of margir komnir saman og því baðst ég afsökunar á þeim mistökum að hafa ekki verið meira á varðbergi.“

Heimildamaður Vísis sagði í gær að þetta stæðist ekki. Bjarni hefði verið lengur í Ásmundarsal eða allt að 45 mínútur. 

Skilur að málið valdi vonbrigðum

Spurður um það hvaða tilfinningar vakni þegar hann hugsar til baka um veru sína í Ásmundarsal, með það í huga að sögur birtist í sífellu af fólki sem hefur þurft að neita sér um margt til að brjóta ekki sóttvarnalög, segir Bjarni að hann skilji vonbrigði fólks. 

„Eins og ég sagði áðan þá hafði ég ekki ástæðu til að halda annað en að sóttvarnir yrðu þarna í lagi og taldi ekki óvarlegt að mæta á sölusýninguna.

En ég hef skilning á því að allir þeir sem eru að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar verði fyrir vonbrigðum þegar reglum er ekki fylgt.“

Í dagbók lögreglu að morgni aðfangadags segir að hún hafi stöðvað margumrætt samkvæmi og að „háttvirtur ráðherra“ hafi verið viðstaddur. Venju samkvæmt er fólk ekki nafngreint í skýrslum lögreglu og er ekki svo í þessu tilviki, en þó má öllum vera ljóst að ekki komi margir til greina þegar ráðherra er nefndur í skýrslu lögreglunnar. Bjarni svarar því þegar hann er spurður um vinnubrögð lögreglu að hann þekki ekki til þeirra reglna sem þar gilda.

„Ég þekki ekki hvaða reglur gilda hjá lögreglunni, það er án efa betra að spyrja lögregluna sjálfa út í þetta. 

Að öðru leyti finnst mér þó lögreglan standa sig vel. Við treystum á að lögreglan stuðli að því að farið sé eftir þeim reglum sem gilda.“

mbl.is

Bloggað um fréttina