„Eins og hann ríkti yfir öllu svæðinu“

Fálkinn var einkar tignarlegur að sjá.
Fálkinn var einkar tignarlegur að sjá. Ljósmynd/Alex Máni

Alex Máni Guðríðarson, fuglaáhugamaður og ljósmyndari, byrjaði árið vel þegar hann rakst á fálka við Hlíðarvatn í Selvoginum. Sá var spakur og hreyfði sig vart þegar Alex Máni smellti af honum myndum. Hann segir að það hafi verið mögnuð tilfinning að komast í svo mikið návígi við fuglinn.

„Hann var svo tignarlegur og sitjandi á hæstu þúfunni. Það var ekkert annað í kringum hann og það var eins og hann ríkti yfir öllu svæðinu,“ segir Alex Máni í samtali við mbl.is.

Hann byrjar árið gjarnan á fuglaskoðunarferðum enda markmiðið að mynda eins marga fugla og honum gefst rúm til á ári hverju. Mest hefur hann myndað um 160 fugla á einu ári.

„Við erum alltaf með svona árslista, þessir rugluðu fuglakarlar, reynum að ná myndum af sem flestum fuglum allt árið. Maður byrjar strax fyrsta janúar, spenntur yfir því að komast út. Það var bara bónus að fá þennan og það svona nálægt, svo árið byrjar ágætlega.“

Fálkinn var hinn rólegasti á meðan Alex Máni smellti af …
Fálkinn var hinn rólegasti á meðan Alex Máni smellti af honum nokkrum myndum. Ljósmynd/Alex Máni

Var búinn að gefa upp vonina

Þegar Alex Máni tók myndirnar sem hér eru birtar var hann búinn að gefa upp alla von um að hitta fugl til að mynda.

„Það voru engir fuglar á vatninu, það var alveg logn. Ég var eiginlega búinn að gefast upp, búinn að keyra hringinn í kringum allt vatnið. Ég er oft búinn að hafa augastað á þessari þúfu [sem fálkinn sat á] og hef alltaf óskað þess að á henni sæti einhvern tímann fálki eða bara smyrill eða eitthvað en aldrei hefur það gerst. Svo keyrði ég framhjá þúfunni og var eiginlega farinn alveg fram hjá henni án þess að líta á hana. Svo leit ég hálfpartinn aftur fyrir mig og negldi alveg niður þegar ég sá að hann sat þarna alveg við veginn. Ég drap á bílnum og smellti af honum nokkrum myndum. Svo var hann það rólegur að ég gat bara fært mig til og bakkað án þess að hann hreyfði sig.“

Er það ekki óvenjulegt?

„Jú, það er frekar óvenjulegt. Það getur verið að hann hafi verið nýbúinn að fá sér að éta, hafi verið þungur og ekki nennt að fljúga. Svo flaug hann bara aðeins lengra, settist á staur og ég lét hann vera. Það er gott að atast ekki of mikið í þessum fuglum,“ segir Alex Máni.

Ljósmynd/Alex Máni

Betra að fólk styggi ekki fálka

Hann bendir á að fálkar séu friðaðir og best að fólk styggi þá ekki.

„Það eru alltaf einhverjir sem vilja ganga lengra til að ná betri mynd. Þá getur maður verið að styggja fuglinn og það vill maður ekki,“ segir Alex Máni.

Hann hefur áður hitt fálka en þó ekki oft.

„Maður er mikið á ferðinni svo maður endar á því á einhverjum tímapunkti að lenda í svona. Þeir eru mikið hérna á þessir fálkar, á suðvesturhorninu, meðfram ströndunum, við vötn og svona. Eins við ræsi á Selfossi og þar sem mikið er af fuglum yfir vetrartímann og bara strandlengjuna, Reykjanesskagann allan.“

Alex Máni heldur úti Instagram-reikningi þar sem hann birtir einstakar myndir af fuglum. Hann hefur mikinn áhuga á fuglum og er alltaf með myndavél og sjónauka í bílnum hjá sér. Áhugi hans á fuglum kviknaði þegar hann var drengur.

„Ég hef alltaf verið með mikinn áhuga á náttúrunni og mikið að horfa í kringum mig. Síðan þá er maður eiginlega búinn að vera á fullu í þessu. Afi heitinn var mikið að taka myndir og svo var stjúppabbi minn á kafi í fuglunum,“ segir Alex Máni.

mbl.is

Bloggað um fréttina