Efla og styrkja nemendur í Fellahverfi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra.

Skólafólk og nemendur í Fellahverfi í Breiðholti munu vinna saman að því að efla íslenskukunnáttu og styrkja sjálfsmynd barna í Fellahverfi. Um er að ræða samstarfsverkefni til þriggja ára sem miðar að því að efla málþroska og læsi og breyta starfsháttum í leik- og grunnskólum og frístundaheimili hverfisins. Verkefnið er nú þegar komið á fullan skrið en að því koma félagsmálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, skóla- og frístundasvið Reykjavíkur, menntavísindasvið Háskóla Íslands og skóla- og frístundadeild Breiðholts að því er segir í tilkynningu. 

Frétt 

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsóttu Fellaskóla í gær, kynntu sér áherslur verkefnisins og hittu aðstandendur þess.

Starfsfólk leikskólanna Aspar og Holts, Fellaskóla og frístundaheimilisins Vinafells vinna saman að því að bæta námsárangur og líðan nemenda en markmið verkefnisins eru meðal annars:

  • Auka hæfni leik- og grunnskólanemenda í íslensku.
  • Efla læsi, sérstaklega málörvun, málþroska, orðaforða og lesskilning nemenda með annað móðurmál en íslensku.
  • Efla snemmbæran stuðning, samstarf og samfellu milli leik- og grunnskóla og frístundaheimila.
  • Stuðla að bættri líðan nemenda og virkni í námi.
  • Efla þekkingu starfsfólks leik- og grunnskóla og frístundaheimila um land allt á þessu sviði.

Til þessa fær starfsfólkið stuðning og liðsinni, m.a. frá menntavísindasviði Háskóla Íslands með faglegri ráðgjöf lestrarfræðings og aðkomu að mati á verkefninu samkvæmt tilkynningu.

Frétt mbl.is

Verkefninu er ætlað að stuðla að jöfnum tækfærum barna Fellahverfis og annarra barna á Íslandi til menntunar en gert er ráð fyrir að á síðasta ári verkefnis verði haldin starfsþróunarnámskeið fyrir kennara og starfsfólk leik- og grunnskóla og frístundaheimila um land allt, sem byggjast á niðurstöðum og reynslu af verkefninu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert